Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég vildi aðeins þakka hæstv. forseta fyrir svörin við spurningum mínum. Svörin voru alveg skýr. Það hefur ekkert það komið fram á fundum forseta þingsins sem bendir til þess að þinglausnir verði á öðrum degi en þeim sem ætlað var, þ.e. þann 6. maí. Ég skil svör hæstv. forseta þannig.
    Ég vil af þessu tilefni gagnrýna það, og þá er ég ekki að gagnrýna hæstv. forseta heldur hæstv. ríkisstjórn, hversu seint koma fram mjög mikilvæg mál hér í þinginu. Það hlýtur að valda mjög miklum erfiðleikum að afgreiða þau mál sem auðvitað þurfa að fá afgreiðslu og þó skal ég ekki nefna nema vegáætlunina. Það hlýtur að valda miklum erfiðleikum hversu seint vegáætlunin kemur fram og er ekki einu sinni á dagskrá þessa fundar. Auk þess gagnrýni ég það að skýrsla Byggðastofnunar skuli ekki hafa komið fram á þinginu. Það er ekki einu sinni búið að dreifa henni og ég veit ekki hvort það er búið að semja hana. Það er gagnrýnivert. Að lokum það sem hér hefur einnig verið minnst á, að ýmsar skýrslur hafa ekki verið ræddar, eins og staða fiskvinnslunnar, jafnréttismál, Þróunarfélagið o.fl.
    Mér sýnist einnig á þessum svörum hæstv. forseta að það geti ekki verið mörg áhugamálin sem ríkisstjórnin vill að nái fram að ganga og á ég þar við frumvörp í deildum. Ég get t.d. ekki séð hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlast til þess að á þessum tveimur fundum deilda eða kannski þremur í næstu viku verði afgreitt þetta svokallaða húsbréfafrumvarp, en það er kannski ekki lengur meðal áhugamála ríkisstjórnarinnar.