Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig við þinghaldið. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. forsrh. hverfur úr landi nú eftir helgi. Hér liggur fyrir mjög lítil og einföld fsp. frá mér til hans um afkomu fiskvinnslunnar, fsp. sem ég hef borið fram með formlegum hætti til þess að reyna að tryggja svar á hinu háa Alþingi eftir að hæstv. forsrh. hefur komið sér undan og hliðrað sér hjá því að svara fsp. þrásinnis þegar hún hefur verið borin fram af ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, bæði í Ed. og Nd. og eins í Sþ. Nú skilst mér á hæstv. forseta að þinglausnir eigi að fara fram eftir rúma viku, eða á laugardegi í næstu viku, og því er það auðvitað mjög ámælisvert af hæstv. forsrh. að hann skuli ekki láta svo lítið sem koma hingað í þingsalinn og svara þessari einu fsp. áður en hann hverfur úr landi. Ég hafði ekki varað mig á þessu meðan á fyrirspurnatímanum stóð, sérstaklega ekki vegna þess að hæstv. fjmrh. sagði mér að fyrirspurnatími yrði í Sþ. í næstu viku og hafði beðið mig um að ég samþykkti að svar við einni fsp., um söluátak spariskírteina, biði næstu viku. Ég tók því auðvitað svo sem slíkur fundur yrði haldinn annaðhvort á föstudaginn eða laugardaginn í næstu viku, á síðasta eða næstsíðasta degi þingsins, og sem sýndi þá að þetta þinghald hlyti að vera meira en lítið vel undirbúið og vel stjórnað úr því að hægt væri að svara fyrirspurnum í góðu næði þegar svo er liðið á þinghaldið.
    Ég vil í þriðja lagi, hæstv. forseti, taka undir með formanni þingflokks Sjálfstfl. að þessar athugasemdir beinast ekki að forseta. Ég legg áherslu á að í næstu viku sé hægt að ræða hafnaáætlun er hæstv. samgrh. hefur lagt fram. Það er nauðsynlegt að þetta plagg verði rætt í þinginu og ég vil biðja hæstv. forseta að gera það sem í hans valdi stendur til þess að hafnaáætlunin verði hér rædd. Það þarf ekki að ræða um það hversu mikið mál það er fyrir sjávarútveginn í landinu að vel og myndarlega sé að þessu staðið.
    Ég vil á hinn bóginn óska eftir því við hæstv. forseta, ef hugmyndir hans eru þær að þinghald verði hér á morgun, að ákvörðun um það dragist ekki lengur en til kl. 2. Ég hef undirbúið fundi í mínu kjördæmi á morgun í samræmi við áætlun um þinghaldið og í samræmi við þá vitneskju sem ég hafði síðast nú í morgun og vissi ekki betur en okkur væri óhætt að treysta því að við gætum farið út í kjördæmin á morgun. Úr því að þingi lýkur í næstu viku er auðvitað alveg sjálfsagt af stjórnarandstöðunni að reyna að greiða fyrir þeirri áætlun. Ef ætlunin er á hinn bóginn að láta þetta svona danka og róla og segja þingmönnum eitt um þinghaldið í dag og annað á morgun held ég að nauðsynlegt sé fyrir þingið að halda sig við það að þingmenn geti bundið sig við þær áætlanir sem þeir hafa gert varðandi sinn tíma á morgun.
    Ég vil svo að síðustu leiðrétta ónákvæmni. Ég tók eftir því að það féll út eitt orð hjá hæstv. forseta áðan, orðið ,,ekki``. Hæstv. forseti sagði að í grófum

dráttum hefði verið haldið við starfsáætlun þingsins, en þar féll orðið ,,ekki`` niður. Það hefur í grófum dráttum ekki verið haldið við starfsáætlun þingsins.