Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að undirstrika það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykn., formanni þingflokks Sjálfstfl., varðandi þetta þinghald og þinghaldið síðustu dagana. Eftir að hafa hlýtt á orð manna nú finnst mér að þingið þurfi aðeins að staldra við og átta sig á því hvað það gerir næstu daga. Mig langar til þess að spyrja virðulegan forseta hvort honum er kunnugt um að forsrh. verði ekki á þingi í næstu viku. Ef svo er, þá sýnist mér að þegar í dag þurfi að boða fund á vegum forseta þingsins, forsrh. og formanna þingflokka til þess að hægt sé að átta sig á því hvernig menn vilja standa að þinglokum og með hvaða hætti hægt er að vinna þessi verk þegar ljóst er að í næstu viku eru þrír fundardagar af fimm og dregur til þinglausna á laugardag 6. maí. Ef forseti getur svarað því hvort hæstv. forsrh. verður hér eða ekki sýnist mér að út frá því verði að bregðast strax í dag.