Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Það kom fram af hálfu forseta, sem er vitaskuld alveg kórrétt, að það væru þingmenn sjálfir sem réðu framgangi mála í þinginu. Hitt er svo annað mál að það er löngu viðurkennd venja að hæstv. ríkisstjórn á hverjum tíma hefur verkstjórn á hendi um framgang þingmála svo sem eðlilegt er, enda myndaður meiri hluti í þinginu til þess að tryggja framgang mála. Þessi verkstjórnarskylda hvílir því á hæstv. ríkisstjórn á hverjum tíma.
    Nú vill svo til að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sinnt þessari verkstjórnarskyldu. M.a. er það venja í ljósi þessa að ríkisstjórn leggur fram lista yfir þau mál sem hún leggur höfuðáherslu á að nái fram að ganga því að jafnan er það svo að fleiri mál liggja fyrir en mögulegt er að afgreiða á hverju þingi og það er ekkert nýmæli nú. Hitt er nýmæli að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið sér saman um hvaða mál hún leggur höfuðáherslu á.
    Það hefur líka komið fram að forseta hefur ekki verið tilkynnt um það af hálfu þeirra sem eðli máls samkvæmt fara með verkstjórn hvort framlengja eigi þinghaldið og því reiknar forseti með að því ljúki samkvæmt starfsáætlun þingsins. Viðstaddir þessa umræðu hafa verið nokkrir hæstv. ráðherrar og þeir hafa engar athugasemdir gert um þetta. Með öðrum orðum er það niðurstaða þessarar umræðu að hæstv. ríkisstjórn hefur engin mál sem hún leggur áherslu á að nái fram að ganga öðrum fremur. Það er niðurstaða þessa máls og greinilega samþykkt með þögn hæstv. ráðherra sem hér sitja og hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu.
    Vegna óska forseta um að haldnir verði aukafundir í þinginu á laugardegi, sem er ekki venjan nema alveg sérstaklega standi á, hlýt ég að vekja athygli á því að það er engin nauðsyn að halda fundi utan reglulegs fundatíma Alþingis þegar svo stendur á að hæstv. ríkisstjórn hefur engin forgangsmál og ætlar að láta skeika að sköpuðu um það hvort einhver mál nái fram að ganga. Við slíkar aðstæður er óþarfi að halda fundi utan reglulegs fundatíma. Á þetta vildi ég leggja áherslu, frú forseti.