Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það vekur sannarlega furðu þegar þessar umræður hafa staðið í þrjá stundarfjórðunga að hæstv. heilbrmrh. skuli upplýsa að hæstv. ríkisstjórn hafi forgangsmál og hafi þegar rætt það á ríkisstjórnarfundum og einnig möguleika á því að framlengja þingið. Forseti Sþ. byrjar þessa umræðu með yfirlýsingu um að honum hafi ekki verið gert viðvart um að hæstv. ríkisstjórn hafi í hyggju að framlengja þingið. Þegar umræður hafa staðið í þrjá stundarfjórðunga á þeim grundvelli að enginn forgangslisti liggi fyrir þá fyrst upplýsir hæstv. ríkisstjórn að allt þetta hafi verið rætt, ríkisstjórnin ætli að hafa ákveðin forgangsmál og að hún hafi rætt um að framlengja þingið. Þetta er býsna mikil óvirðing við forseta sameinaðs Alþingis að koma svona fram og láta hæstv. forseta gefa slíkar yfirlýsingar þegar þessar umræður hafa þegar farið fram. Það lýsir alveg einkennilegri verkstjórn og einkennilegum skilningi á verkstjórnarhlutverki ríkisstjórnarinnar að ræða þessi mál í pukri við ríkisstjórnarborðið en neita að koma með þau inn á Alþingi og ræða þau við forustu þingflokkanna. Það er aldeilis gegn allri venju sem hér hefur skapast og ég veit raunverulega ekki hvað að baki býr, vonandi ekki annað en skilningsleysi á eðlilegu verkstjórnarhlutverki hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að þar séu alvarlegri hlutir á ferðinni meðan annað kemur ekki fram.