Fjáraukalög 1981-1986
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. fjvn. (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal verða við tilmælum forseta um að tala fyrir öllum þessum málum í einu. Þetta eru að vísu samkomulagsmál svo langt sem það nær.
    Fyrsta málið er 143. mál, þ.e. frv. til fjáraukalaga fyrir árin 1981, 1982, 1983, 1984, 1985 og 1986. Fjvn. hefur rætt frv. og kvaddi til viðræðna við sig fulltrúa fjmrn. Nefndin hefur fjallað sérstaklega um svokallaðar aukafjárveitingar, þ.e. greiðslur úr ríkissjóði umfram greiðsluheimildir á fjárlögum, og er greint frá þeirri umfjöllun í nál. um frv. til fjárlaga sérstaklega fyrir árið 1987.
    Í athugasemdum við frv. er sagt að alþingiskostnaður sé undanskilinn umframgjöldum æðstu stjórnar ríkisins, en svo er ekki. Umframgjöld æðstu stjórnar ríkisins eru að meðtöldum alþingiskostnaði. Það er einróma álit nefndarmanna að sá dráttur sem orðið hefur á afgreiðslu fjáraukalaga sé óverjandi. Nauðsynlegt er að þeim vinnubrögðum verði breytt og er það eitt af því sem nefndin hefur rætt sérstaklega í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaganna. Vísast í því sambandi til nál. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1987 sem ég kem að síðar.
    Nefndin leggur til að frv. á þskj. 150 verði samþykkt. Þetta er undirritað 25. apríl 1989 af öllum fjárveitinganefndarmönnum.
    Þá kem ég að 160. máli á þskj. 171 sem er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1979. Þetta frv. er að sjálfsögðu sérstaks eðlis og það er óeðlilegt að það skuli koma svona seint fram. Nefndin hefur rætt frv. og kvaddi til viðræðna við sig fulltrúa fjmrn. Nefndin hefur fjallað sérstaklega um svokallaðar aukafjárveitingar, þ.e. um greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir, og er greint frá þeirri umfjöllun í nál. um frv. til fjáraukalaga fyrir 1987.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem flutt er á þskj. 937 um að liðurinn 00 orðist svo: ,,Æðsta stjórn ríkisins 4.738 þús. kr.`` Þessa fjárhæð vantaði í frv. sjálft og er kostnaður vegna Alþingis sem var tilfærður á ríkisreikning fyrir árið 1979 og Alþingi hefur þegar samþykkt. Þarna er um leiðréttingu að ræða sem fylgir hér með á sérstöku þingskjali.
    Þá kem ég að þriðja lið sem er 291. mál. Það er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1987 sem hér er til afgreiðslu. Nefndin hefur haft frv. til meðferðar og kallaði til fundar við sig fulltrúa fjmrn. og fór yfir niðurstöður útgjalda hjá einstökum stofnunum og viðfangsefnum. Nefndin ræddi síðan við forráðamenn þeirra stofnana, embætta eða viðfangsefna þar sem veruleg frávik voru í útgjöldum frá greiðsluheimildum fjárlaga og leitaði skýringa. Viðstaddir þá fundi voru fulltrúar viðkomandi fagráðuneyta og þó einkum og sér í lagi þeir sem fara með fjármál og fjárhagslegt eftirlit fyrir hönd ráðuneytanna. Einnig voru fulltrúar fjmrn. viðstaddir þessa fundi. Tilgangur þessara funda fjvn. var eins og áður segir að fá fram skýringar forráðamanna þeirra stofnana, embætta eða viðfangsefna þar sem útgjöld höfðu farið verulega

fram úr fjárlagaheimildum og leggja áherslu á að útgjaldaáætlanir væru sem réttastar og þeim væri framfylgt. Þjóna þessir fundir þannig bæði upplýsingahlutverki, aðhaldi og eftirliti með framkvæmd fjárlaga.
    Til fundar við fjvn. voru kvaddir forráðamenn eftirtalinna stofnana, embætta og viðfangsefna: Æðsta stjórn ríkisins: frá embætti forseta Íslands og embættismenn Alþingis. Menntmrn.: frá aðalskrifstofu, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Námsgagnastofnun, Tækniskólanum, Hótel- og veitingaskólanum og Myndlista- og handíðaskólanum. Utanrrn.: frá aðalskrifstofu og lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli. Landbrn.: frá aðalskrifstofu, veiðistjóra og Skógrækt ríkisins. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti: frá aðalskrifstofu, bæjarfógeta- og sýslumannsembættum og vegna dómsmála, þ.e. ýmissar starfsemi þeim tengdrar, og löggæslukostnaðar við útihátíðir. Félmrn.: frá aðalskrifstofu, Húsnæðisstofnun og vegna málefna fatlaðra.
    Sérstaklega ber að taka fram að í sumum tilvikum komu fram eðlilegar skýringar á því að kostnaður hafi farið verulega fram úr áætlun fjárlaga eða að áætlanir um útgjöld sem stuðst var við þegar frá fjárlögum var gengið voru ekki raunhæfar. Í öðrum tilvikum kom fram að ekki var nógu traustlega staðið að fjármálastjórn og var lögð áhersla á það af hálfu fjvn. að þar yrði bætt um betur.
    Einnig er rétt að taka fram að þau embætti, viðfangsefni eða stofnanir sem sendu fulltrúa til viðræðna við fjvn. vegna afgreiðslu fjáraukalaga fyrir 1987 eru síður en svo þau einu sem nefndin taldi nauðsynlegt að skoða sérstaklega, enda hafa ýmsar aðrar stofnanir, embætti og viðfangsefni verið í sérstakri skoðun hjá nefndinni þó að skoðun tengist ekki sérstaklega afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1987.
    Í sambandi við afgreiðslu nefndarinnar á aukafjárlögum þeim, sem verið hafa til meðferðar á Alþingi í vetur, fóru fram miklar umræður í nefndinni og við fjmrh. og fjármálaráðuneytismenn um svokallaðar aukafjárveitingar, þ.e. greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir í fjárlögum. Fram kom hjá öllum nefndarmönnum eindreginn vilji til þess að setja skorður við greiðslum úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga sem fjárveitinganefndarmenn eru sammála
um að gengið hafi úr hófi fram. Nefndarmenn eru sammála um að þeim vinnubrögðum sem ríkt hafa við afgreiðslu aukafjárveitinga verði að breyta, en hins vegar greinir menn nokkuð á um hve langt skuli ganga í því efni. Þau mál hafa verið til umræðu á fundum nefndarinnar með fjmrh. sem bæði hefur veitt nefndinni ítarlegar upplýsingar um þessi mál og óskað samráðs við hana. Á þessum fundum hefur einnig fram komið að fjmrh. er áhugasamur um að breyta þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið varðandi aukafjárveitingar og vill taka ákveðið á þeim málum.
    Þá hefur nefndin einnig snúið sér til Lagastofnunar Háskóla Íslands og átt viðræður við Sigurð Líndal prófessor um lagaleg atriði þessara mála. Nefndin

hefur óskað eftir því við Lagastofnun Háskólans að hún taki þátt í frekari umræðum um þessi mál og samstarfi um setningu reglna eða laga um þau mál og hefur því verið vel tekið.
    Þessu máli tengist svo afgreiðsla aukafjárlaga. Þótt ekki sé litið til annarrar áttar en þeirrar að treysta fjárlagagerð og byggja hana á sem raunhæfustum grunni útgjaldaþarfar er ljóst að eigi síðar en um svipað leyti eða skömmu eftir að fjárlög hafa verið lögð fram fyrir Alþingi ber að leggja fram frv. að aukafjárlögum fyrir næstliðið ár sem er lokaumfjöllun um ríkisbúskapinn á því ári. Af slíku frv. til fjáraukalaga, sem yrði þá til meðferðar samhliða fjárlagaafgreiðslunni, mætti betur sjá en ella hversu raunhæfar og réttar áætlanir fjárlagafrv. eru um einstök viðfangsefni miðað við rauntölur um niðurstöðuna árið áður. Æskilegast væri þó að afgreiðsla fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár gæti átt sér stað t.d. í lok vormissiris og aftur við árslok, ekki síst ef verulegar breytingar hafa orðið frá afgreiðslu fjárlaga á þýðingarmiklum útgjaldaliðum.
    Þar sem Alþingi fer með fjárveitingavaldið er eðlilegt að það hafi frumkvæði að því að skoða þessi mál og breyta um stefnu og hafi jafnframt forræði um það en leiti samstarfs við fjmrn., Lagastofnun Háskóla Íslands og aðra. Samkvæmt þingsköpum hefur fjvn. Alþingis heimild til þess að skipa úr sínum hópi undirnefnd sem starfi milli þinga að sérstökum verkefnum. Með vísan til þessara ákvæða hefur fjvn. samþykkt að skipa undirnefnd og fela henni að vinna áfram að málinu í samvinnu við fjmrn. og Lagastofnun Háskóla Íslands. Undirnefndinni hefur verið falið að ljúka störfum í sumar og leggja fyrir fjvn., forseta Alþingis og þingflokkana niðurstöður sínar um starfsreglur eða lagasetningu um greiðsluheimildir úr ríkissjóði og meðferð aukafjárveitinga.
    Nefndin hefur talið rétt, vegna afgreiðslu þeirra frv. að fjáraukalögum sem eru nú til meðferðar á Alþingi og ég hef þegar mælt fyrir, að gera grein fyrir því að hún vill stuðla að breytingum á vinnubrögðum varðandi slík frv. og um afgreiðslu greiðsluheimilda og greiðslna úr ríkissjóði.
    Þessi umræða tengist vissulega umræddum frumvörpum, en þótt endanleg niðurstaða sé ekki fengin, nefndin stefnir að því að niðurstaða fáist eigi síðar en á haustþingi 1989, þá á það ekki að standa í vegi fyrir afgreiðslu frumvarpanna. Nefndin leggur þess vegna til að þetta frumvarp í sambandi við fjáraukalög fyrir 1987 verði samþykkt.
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í fjvn., Sighvatur Björgvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Alexander Stefánsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Pálmi Jónsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Málmfríður Sigurðardóttir og Egill Jónsson.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessi frv. verði samþykkt og vísað til 3. umr.