Fjáraukalög 1981-1986
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli frsm. fjvn., hv. 1. þm. Vesturl., stendur fjvn. í heild að þessum nál. og leggur til að þau frv. sem hér hefur verið mælt fyrir nál. um verði samþykkt.
    Varðandi það sem fram kom í lok ræðu hv. þm. um að fjvn. hefði samþykkt að setja undirnefnd til þess að fjalla um starfsreglur varðandi greiðsluheimildir utan fjárlaga, þ.e. svokallaðar aukafjárveitingar, þá vil ég gjarnan taka fram, og hef tekið það fram í umræðum um þessi mál innan fjvn., að það eina sem fram hefur komið sem markar einhverja stefnu í þessum málum er frv. okkar hv. þm. Geirs H. Haarde um þetta mál og verður það ábyggilega grundvallarskjal í þessari athugun. Ég vænti þess frekar að niðurstaða þessarar nefndar leiði til þess að þörf sé á því að mörkuð séu skýrari ákvæði um þetta í lögum, svo sem frv. okkar hv. þm. Geirs H. Haarde gerir ráð fyrir, fremur en að mótaðar séu starfsreglur sem svífa þá meira og minna í lausu lofti. Þetta vildi ég láta koma hér fram. Ég tel einnig ástæðu til að það komi fram --- vegna þess að eitt af þessum málum er í rauninni mjög afbrigðilegt, þ.e. fjáraukalög frá 1979 --- að svo slysalega mun hafa tekist til um það mál, sem var lagt fyrir Alþingi að ég ætla 1983, að hv. Alþingi náði ekki að afgreiða frv. þá, en það gleymdist síðan með einhverjum hætti í kerfinu og er svo seint á ferðinni þess vegna.