Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hér er skoðanamunur milli deildanna, hv. Ed. og hv. Nd., um það hvort þörf sé á að hafa orðin ,,á óréttmætan hátt`` inni í 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar. Við umræður um þetta mál í hv. Nd. lét ég þau orð falla að ekki dytti mér í hug að deildarmenn væru í raun og veru ósammála um að hér væri verið að reisa skorður við ólögmætri breytni, ólögmætri hegðan, rangindum, og í þeim skilningi mætti e.t.v. hugsa sér að orðin ,,með óréttmætum hætti`` væru ekki þarna inni. Það er hins vegar álit flestra lögfróðra manna og þannig var frv. úr garði gert þegar ég mælti fyrir því hér upphaflega að þessi orð ættu að vera þarna inni.
    Í Ed. ákvað hv. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar einróma ef ég man rétt að leggja til að þessi orð kæmu inn aftur. Þetta var þó ekki gert beinlínis að minni tilstuðlan, en miðað við það að ég lagði frv. fram á þennan hátt í upphafi get ég ekki verið því andvígur og segi blátt áfram að ég er alveg sannfærður um það að þingmenn eru í raun og veru einhuga um málið og tel það tryggara að hafa þetta orðalag inni sem hinir lögfróðustu menn leggja til að þarna verði til þess að girða fyrir misskilning.
    Fleiri orð mun ég ekki hafa um þetta, virðulegi forseti.