Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnar Arnalds:
    Herra forseti. Ég á sæti í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Ég var því samþykkur að orðin í 7. gr. frv. ,,á óréttmætan hátt`` yrðu felld út úr lagatextanum og er flm. að þeirri tillögu sem er til atkvæðagreiðslu. Ég er á þessari skoðun fyrst og fremst vegna þess að ég held að það skilji enginn hvað átt er við með þessum orðum. Það er aðalástæðan fyrir því að ég styð að þessi orð falli út. Ég álít að texti sem er þannig orðaður að það skilur hann enginn eigi ekki að vera í lögum. ( FrS: Skilur hv. þm. allan lagatexta?) Alla góða lagatexta. En það eru til vondir lagatextar og þessi texti mundi flokkast undir einn slíkan ef hann yrði að lögum. Ég held að lagatexti af þessu tagi sé frekar sjaldgæfur í lagamáli. Ég álít að það sé ákaflega erfitt fyrir málsaðila að sanna til eða frá hvort sú hagnýting sem hér er um að ræða og á að hafa verið annaðhvort af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hafi verið óréttmæt eða réttmæt vegna þess að þá er verið að grípa til allt annarrar mælistiku en þeirrar sem eðlileg er í þessu samhengi.
    Staðreyndin er sú að þessi grein er búin að vera við lýði um tveggja ára skeið og það mun aldrei hafa reynt á þessa grein fyrir dómstól. Það hefur enginn gert tilraun til að beita henni og sumir segja að það sé vegna þess hve textinn er loðmullulegur. Sumir segja að það sé erfitt fyrir menn að leita réttar síns einmitt vegna þess hve textinn er óljós, óskýr og alls ekki á því einfalda lagamáli sem hæfir góðum texta í lögum. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt og réttmætt að gera bragarbót og flyt þessa brtt. ásamt fjórum öðrum nefndarmönnum.