Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég hef litlu við að bæta þær röksemdir sem meðflm. mínir að tillögunni og forsrh. hafa haft hér í frammi. Það er alltaf spurning hvað er álit færustu lögfræðinga og vísa ég þar til orða hæstv. viðskrh. Þeir lögfræðingar sem við ráðfærðum okkur við og álítum færa töldu ekki þörf á þessu orði og töldu textann betri, skýrari og skilmerkilegri ef þessi orð væru ekki í honum. Mín skoðun er óbreytt, að textinn sé skýrari, skilmerkilegri og eðlilegri ef þessi orð eru ekki með. Það má spyrja hvort eðlilegt sé að hagnýta sér þetta á réttmætan hátt því að ef um óréttmætan hátt er að ræða hlýtur að mega gagnálykta eins og síðasti ræðumaður sagði.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira, en ég fer fram á að þingdeildin samþykki þá brtt. sem við höfum hér lagt fram.