Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að hv. 1. þm. Norðurl. v. flytur ekki þá tillögu sem hér er um að ræða í nafni fjh.- og viðskn. Nd. heldur eru það nokkrir þingmenn sem flytja þessa tillögu. Ég er ekki þar á meðal og á sæti í fjh.- og viðskn. Nd.
    Ég velti dálítið vöngum yfir þessu orðalagi og mér fannst þetta glettilega flókið mál. Ég held að hér sé um að ræða talsvert alvarlegt mál, ekki síst vegna þess að við erum að setja lagagrein sem felur í sér viðurlög og allt að fangelsi ef hún er brotin. Löggjafinn sem slíka lagagrein setur hlýtur að verða að vita hvað hún þýðir. Það er dálítið umhendis þykir mér að löggjafinn setji lög sem hann er engan veginn skýr á hvað þýði og ætli dómurum að reyna að giska á hver niðurstaðan eigi að verða. Kann að vera að það sé of algengt að Alþingi samþykki lög sem engum er í rauninni ljóst hvað þýða.
    Ég verð að játa í fyrsta lagi að mér er alls ekki ljóst hvað orðin ,,á óréttmætan hátt`` þýða í þessu sambandi. Mér er engan veginn ljóst hvað þau þýða. Mér finnst það fremur höfða til siðgæðis en til laga. Ég segi það reyndar með mínu leikmannsmati á þessu orði. En ég vek sérstaka athygli á því að lögin eru núna með þessu orðalagi, þ.e. hver sá ,,sem af ásetningi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns`` o.s.frv. Ef ,,á óréttmætan hátt`` er fellt út verða menn að velta fyrir sér hver lögskýring er á því. Af hverju felldi þingið þetta út og hvað þýðir þá setningin ef við lesum hana með því að fella út nokkur orð sem eru ekki kannski aukaatriði en skýringaratriði? Þá má vel lesa greinina á þennan hátt: Hver sem af ásetningi hagnýtir sér fjárþröng viðsemjanda síns til þess að áskilja sér vexti umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi. Þá verða menn að svara því: Hvað þýðir þetta? Ef menn bjóða eða kaupa skuldabréf á markaði og hagnýta sér fjárþröng aðila á þann hátt að þeir kaupa bréfin þegar mest framboð er, þá er mikil fjárþröng, þá vantar viðsemjendur eða seljendur bréfanna fé. Þeir sem vilja kaupa kaupa náttúrlega þá, því að þá eru mest afföll á bréfunum. Auðvitað eru menn að hagnýta sér aðstæður á markaði með því. Eru menn með því að hagnýta sér fjárþröng viðkomandi aðila? Og ef búið er að fella út orðin ,,á óréttmætan hátt``, hvaða afleiðingar hefur það þá þegar talað er um að ef um er að ræða vaxtamörk yfir því sem viðskiptabankar og sparisjóðir setja sér skuli viðkomandi jafnvel sæta fangelsi? Ég verð að játa að þetta velktist talsvert fyrir mér og vegna þess að orðin ,,á ólögmætan hátt`` eru í lögunum verð ég að játa að ég get fengið ýmislegt út úr framhaldinu ef við fellum þau út. Ég er þess vegna ekki flm. að þeirri tillögu að fella þetta niður og tel að það hljóti að vera mjög vafasamt að fella þetta orðalag niður og get engan veginn séð fyrir mér á hvern hátt dómari mundi túlka slíkt þegar til kæmi.
    Hitt er aftur annað mál að ég tek undir það sem hæstv. forsrh. sagði áðan því að mér er út af fyrir sig

ekki ljóst í upphafi hvaða þýðingu það hefur að setja inn að menn skuli sæta sektum eða viðurlögum ef þeir framkvæma eitthvað á óréttmætan hátt. Öll þykir mér þessi grein talsvert amböguleg. En að öllu samanlögðu, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að það sé óvarlegt að fella þetta orðalag út.