Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það var sagt eitthvað í þá veru áðan hvað ætti að gera við þessa vaxtaokrara. Ég leyfi mér að spyrja: Hvað á að gera við stjórnmálamenn sem skapa þessi skilyrði í efnahagsástandi landsins? Hvað á að gera við svoleiðis stjórnmálamenn? Á ekki að setja einhverja löggjöf um að gera eitthvað við stjórnmálamenn sem framkalla þessi skilyrði á markaðnum? (Gripið fram í.) Já. Það er miklu stærri spurning því það eru þeir sem skapa ástandið sem eru sökudólgarnir en ekki þeir sem hrærast í þessari vitleysu.
    Það vill nefnilega svo til að menn sem tala sýknt og heilagt um frjálshyggju og kenna henni um allt skilja ekki að það er hlutverk stjórnvalda að draga úr eftirspurn eftir fjármagni þar til næst jafnvægi á markaði. Það er hlutverk stjórnmálamanna og ráðherra. Þeir eiga að sjá til þess að það sé jafnvægi milli heildarframboðs og heildareftirspurnar á peningum. Atvinnulífið verður að sitja fyrir fjármagni vegna þess að það framleiðir verðmæti. Ríkiskassinn framleiðir ekki verðmæti. Svona stjórnmálamenn skilja ekki að verðmæti verða til í fyrirtækjum en ekki í ríkishítinni. Það er ekki hægt að laga veðrið úti í roki með því að ráðast á barómetið og toga nálina upp á ,,smukt``. Það mundi líka ganga illa að ætla sér að lækna sjúklinginn af 41 stigs hita með því að stinga honum í ísvatn þar til mælirinn sýnir 37 gráður. Það er engin lækning. Það verður að skilgreina sjúkdóminn. Ég vil aftur spyrja að því hvað eigi að gera við ráðríka stjórnmálamenn sem rjúka til og leggja allt of háa skatta á atvinnulífið fyrir það fyrsta, taka síðan allt of mikla peninga í ríkiskassann með sölu ríkisskuldabréfa. Svo þegar lánsfjárhungrið er algert gerist ýmislegt þar, þá sjá menn alls konar drauga þar, okrara hér og okrara þar, en sjá ekki sjálfa sig sem skópu ástandið. Ég held að þeir ættu að fara að kíkja í eigin barm.