Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnar Arnalds:
    Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til að andmæla hv. þm. Friðrik Sophussyni sem var að reyna að telja þingheimi trú um það áðan að orðalagið ,,á óréttmætan hátt`` væri harla algengt í lagamáli. Þetta er hinn mesti misskilningur. Ég mundi vilja biðja hv. þm. að gefa okkur einhver dæmi um hvar komi fyrir í lagamáli þessi 99 tilvik sem hann hét áðan að tilgreina ef á þyrfti að halda. Ég held að það væri mjög fróðlegt að fá að heyra þau. Ég hygg að vísu að við séum báðir farnir að ryðga nokkuð í fræðunum því langt er síðan við stunduðum okkar nám, en þó munum við nægilega vel ýmsa mikilvægustu texta lagagreina til að vita að þetta er ekki algengt lagamál. Ef maður t.d. lítur yfir refsilöggjöfina þar sem fjallað er um auðgunarbrotin, en þetta er einmitt ein tegund auðgunarbrota sem þarna er um að ræða og refsilagaákvæði, er hvergi að finna orðalag af þessu tagi í refsilöggjöfinni. Og ef maður lítur á t.d. samningalögin er þar misneytingarákvæði í 32. gr. samningalaganna, en það er ekki tekið þannig til orða þar samt sem áður.
    Ég skal ekkert útiloka að þetta orðalag sé til í lögum. Ég man ekki eftir því, en ég skal ekki útiloka það. En ég fullyrði að það er þá afar sjaldgæft ef það er til og það er ekki notað í þeirri löggjöf sem almennust er og mest hefur gildi, þ.e. refsilöggjöfin og samningalögin.
    Ég vil líka andmæla þeim ruglandahætti sem kom fram hjá hv. þm. áðan þegar hann var að bera þetta hugtak saman við hugtökin ,,stórfellt gáleysi`` og hugtakið ,,ásetning`` og spyrja að því hvort menn gætu skilgreint hvað væri ,,ásetningur`` og hvað væri ,,stórfellt gáleysi``, hvort það væri ekki alveg nákvæmlega eins og svo aftur hitt hugtakið ,,á óréttmætan hátt``. Ég get upplýst þá sem ekki þekkja til að á þessu tvennu er reginmunur. Það eru til margar lærðar ritgerðir um ,,ásetning`` og ,,stórfellt gáleysi``. Það eru viðurkennd lögfræðileg hugtök sem eru vandlega skilgreind. En hugtakið ,,á óréttmætan hátt`` held ég að enginn hafi gert nokkra minnstu tilraun til að skilgreina og efast um að til sé nokkur ritgerð um það fyrirbrigði, enda sjá allir í hendi sér að þar eru viðmiðunarmörkin ekki lögfræðileg í eðli sínu, miklu frekar siðferðileg.
    Þetta held ég að nægi til að hafa á hreinu að það er ekki rétt, sem hér var reynt að halda fram, að þetta sé algengt í lagamáli. Ég endurtek að það má vera að það megi finna þetta einhvers staðar, en þetta er ekki algengt lagamál.