Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en þær eru búnar að vera nokkuð skemmtilegar og kannski áhugaverðar einmitt fyrir þá sök að hér er rætt um skilning manna á algengum lagahugtökum vil ég endurtaka þó að ég ætli ekki að staðhæfa eins og ég gerði áðan að það séu 100 slík tilvik.
    Ég held líka að það sé rétt, sem hér hefur komið fram hjá a.m.k. einum hv. þm., þ.e. hv. 3. þm. Norðurl. e., að þarna séu þeir sem hafi samið þennan texta að reyna að koma í veg fyrir affallaviðskipti sem gætu farið á þann veg að um væri að ræða hærri vexti, ef við getum kallað afföll vexti, en gengur og gerist á markaði. Ég er sammála því. Hér hafa menn rætt um að hér berjist tveir hópar, fulltrúar okraranna séu annars vegar og fulltrúar þeirra sem okrað er á hins vegar, en það er af og frá og sýnir best á hvaða sporbaug slíkir menn eru sem með þeim hætti tala.
    Ég held að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi nefnilega einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann var að lýsa því hve erfitt það getur reynst að skilgreina orðið ,,ásetningur`` og ,,stórfellt gáleysi``. Ég leyfi mér að reyna að koma með dæmi. Hugsum okkur að ég eignaðist skuldabréf og skuldarinn væri hv. þm. Ragnar Arnalds, sem er að vísu mjög ólíklegt og ég valdi ólíklegasta dæmið þess vegna, en hugsum okkur þetta til að koma með eitthvert dæmi. Síðan á ég þetta bréf og hv. þm. verður að greiða handhafa bréfsins afborganir þegar fram líða stundir. Ég lendi í fjárþröng og ég þarf að selja þetta bréf. Ég fer á almennan markað, sel bréfið og þá kemur í ljós að einhver kaupandi metur stöðuna þannig að hann geti keypt bréfið á þeim affföllum sem gerði það að verkum að hann mundi græða í tímans rás af því að hann telur að vextirnir muni haga sér öðruvísi á næstu mánuðum en t.d. hæstv. forsrh. hefur verið að segja í útvarpi eða sjónvarpi. Við skulum segja að annar hvor treysti á ríkisstjórnina sem segir að vextirnir séu að fara niður í 5%, en hinn gerir það ekki og svo kemur í ljós eftir t.d. eitt ár, ef bréfið á að greiðast til baka eftir eitt ár, að sá sem keypti hefur hagnast verulega á þessum kaupum. Þá hefur hann með ,,ásetningi`` fengið meira en ef um hann hefðu gilt vaxtaákvarðanir á hverjum tíma. Hann gerði þetta af fullum ,,ásetningi``. Það má halda því fram að sá sem seldi bréfið, en hver maður má selja bréf á hvaða verði sem er hvenær sem er, hafi verið í fjárþröng. Þá lenda menn í vandræðum og þá fer að reyna á slík ákvæði. Þess vegna held ég að þeir sem semja þennan texta hafi sett inn ,,á óréttmætan hátt``, sem vissulega er siðferðilegt hugtak, til þess að taka af allan vafa. Það geta verið tilvik þar sem menn hafi þessi huglægu viðhorf, en þau séu ekki óréttmæt því að menn kaupa skuldabréf til að græða á því og menn selja oft skuldabréf af því að þeir eru í fjárþröng. Hygg ég að textahöfundurinn hafi sett þetta ákvæði inn til að sýna að í vissum tilvikum getur þetta gerst. Mér finnst að í þessum umræðum hafi ekki komið fram nein haldbær rök fram um að breyta þessu eftir að Ed. er

búin að kynna sér allar umræður um málið, kynnt sér hvað Nd. gerði, kallað til sín nýja sérfræðinga. Ég hef ekki farið fram á neitt annað en að fá haldbær rök og ég sé ekki betur en upp geti komið vafatilvik á borð við þetta.
    Það tala sumir um, og því miður eru ekki allir í salnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, þar á meðal ekki hv. þm. Stefán Valgeirsson, að afföll séu einhvers konar glæpur og að kaupa skuldabréf með affföllum sem reyndust síðan vera svo mikil að þau jafngilda hærra vaxtastigi en verður í þjóðfélaginu sé einhver glæpur. ( GHH: Það yrði laglegt í húsbréfakerfinu.) Já, það yrði laglegt í húsbréfakerfinu. Þetta er mikill misskilningur vegna þess að ef maður á kröfu á þriðja mann verður sú krafa eign kröfuhafans með sama hætti og bíllinn hans eða húsið hans og það bannar enginn öðrum í dag að selja bíl sinn á hálfvirði. Hv. þm. Árni Gunnarsson má selja bílinn sinn á hálfvirði. En ef einhver hefur keypt af honum bíllinn og misnotar þá stöðu að hv. þm. Árni var í fjárþröng hefur hann brotið lög og það er hægt að fara í mál við viðkomandi aðila. Þess vegna eru affallaviðskipti öðruvísi viðskipti en önnur viðskipti á fjármagnsmarkaði. Í markaðsverðinu er spá um væntanlega vexti jafnvel á næstu árum sem enginn getur sagt fyrir um, ekki einu sinni hæstv. forsrh., hvort verða 5% eða 10%. Við höfum ljósast dæmi um að við fengum ríkisstjórn í haust sem lofaði því að lækka vextina svo og svo mikið, en það gekk ekki eftir. ( ÁrnG: Þetta á aðeins við þegar maður selur kröfu á sjálfan sig. Öðruvísi getur það ekki átt við.) Ég hélt ekki að ég þyrfti að kenna mönnum úr þessum ræðustól. En affallaviðskipti eru um það þegar maður selur kröfu á þriðja mann. Það heita affallaviðskipti. Ég á skuldabréf á annan mann, sel þriðja manni. Það eru klárar línur með það. ( ÁrnG: Ef þú selur kröfu á sjálfan þig.) Ef hv. þm. Árni Gunnarsson er að tala um það, sem ég veit að margir eru uppteknir af, að bankar taka t.d. viðskiptavíxla á afföllum en bregðist greiðslan taka þeir andvirðið út af reikningi viðkomandi aðila, þá eru það ekki affallaviðskipti eins og þau eru almennt skilgreind. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að ef hann er að tala um slík viðskipti mundu þau hafa talist okur samkvæmt gömlu okurlögunum einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að skilyrða viðskiptin í affallaviðskiptum með því að segja: Ég
kaupi víxil með afföllum, en ef hann greiðist ekki er ég laus allra mála. Það er einfaldlega vegna þess að inni í afföllunum er sú áhætta sem kaupandinn tekur af því hvort skuldarinn greiðir eða greiðir ekki. Það eru einmitt þessi atriði sem gera þessi mál flókin. Þess vegna er ég alveg sammála hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni um að það þurfi að vera talsvert rík rök fyrir því að löggjafinn fari núna að breyta þessu orðalagi. Það eina sem ég hef beðið um, virðulegur forseti, er að nefndin taki sér smátíma og athugi málið, komi fram með frambærileg rök. Á það hefur ekki verið fallist. Ef það koma frambærileg rök skal ég fyrstur manna fallast á að fella þetta hugtak út. En

þessi rök hafa ekki komið fram. Svo einfalt er þetta mál. Og allra síst í máli hv. þm. Árna Gunnarssonar þegar hann fór að ræða um affallaviðskipti.
    Enn á ný, virðulegur forseti, vil ég vísa því til föðurhúsanna þegar menn halda að umræða á borð við þessa sé einhver umræða þar sem annar hópurinn er að vernda okrara og hinn hópurinn sé að vernda einhverja smælingja. Umræðan snýst um hvort við eigum í íslenskum rétti að setja viðurlög allt að tveggja ára fangelsi án þess að hafa lagaákvæðin nægilega skýr. Hún snýst um það.