Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði fyrir frv. sínu, sem er 171. mál þessa þings, kvaddi ég mér hljóðs til að skýra frá því hvernig fólk úti á landi hugsar og vill hafa þessi mál. Því þykir hart að allir slíkir úrskurðir þurfi að fara hingað til Reykjavíkur og eins og þetta hefur verið er það aðeins einn maður sem kveður upp slíka úrskurði eða þá menn á hans ábyrgð.
    Það sem fólk úti á landsbyggðinni vill breyta er að það séu úrskurðaraðilar í hverju kjördæmi og að það sé ekki einn maður heldur séu það þrír sem fjalla um málið. Ég er ekki sammála hv. síðasta ræðumanni að það sé eingöngu læknisfræðilegt. Það getur líka verið félagslegt mat vegna þess að þetta er flóknara mál en menn margir vilja vera láta.
    Það sem ég sagði þegar frv. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti var til umræðu var að það væri eðlilegast að það væri héraðslæknirinn sem væri formaður þeirrar nefndar og síðan gæti hann kvatt til þann lækni sem væri sérfræðingur í þeim sjúkdómi sem um er fjallað. Ef það er t.d. bæklun, þá bæklunarlæknir, ef það er hjartasjúklingur, þá hjartalæknir og ef það er út af geðrænum sjúkdómi, þá sé það geðlæknir. En í öllum tilvikum sé það félagsráðgjafi sem sé með í slíkum úrskurði.
    En að þurfa að fara með þetta allt hingað til úrskurðar og það er úrskurðað af þeim sem ekkert þekkja til, slíkri miðstýringu, slíku valdi vil ég mótmæla til langframa. Hins vegar viðurkenni ég að það er þó stigið svolítið skref. En eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er spurning um hvort það eigi að vera endilega tryggingaráð. Er nokkur trygging fyrir því að þeir einstaklingar, hversu góðir sem þeir eru, hafi þekkingu á þessum málum jafnvel þó að þeir geti kvatt til ráðgjafa? Ég held að það sé mikilvægt í slíkum úrskurði að þar sé fólk sem þekkir til einstaklinganna og tekur tillit til allra aðstæðna.
    Ég vil að þessi röksemd komi fram og þessi ábending því að það er enginn vafi á að þeir sem fjalla um þetta mál eins og læknar, eins og sjúkraþjálfarar, eins og félagsráðgjafar og fleiri, munu láta heyra meira í sér í þessum málum vegna þess úrskurðar sem hefur borist frá tryggingalækni síðustu árin og ekki sætta sig við að það sé bara dómstóll, það sé tryggingaráð sem hafi úrskurðarvald í þessu máli.