Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að endurtaka enn einu sinni fjölmargar ræður sem ég hef haldið um þetta mál.
    Það er alveg ljóst að það er verið að fara inn á nýja braut með þessu frv. Það er verið að gefa fólki tækifæri til að leita sér áfrýjunar eða fá áfrýjað úrskurði um bæði bótaupphæðir og eins um örorkumat ef einhverjum þykir á sig hallað.
    Í lögunum eins og þau eru er tryggingaráð sá aðili sem tekur við kvörtunum og afgreiðir þær og vegna þess að tryggingaráðsfundi situr ævinlega tryggingayfirlæknir vildi hæstv. ráðherra gefa ráðinu tækifæri til að kalla til liðs við sig annan lækni eða fleiri, einn til þrjá stóð upphaflega, til þess að tryggingayfirlæknir væri ekki sjálfur að meta sín eigin verk.
    En eins og hefur margsinnis komið fram teljum við ekki að örorkumat sé einungis læknisfræðilegt eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan og mig undrar það satt að segja að fyrrv. heilbrmrh. skuli halda því fram að örorkumat sé eingöngu læknisfræðilegt.
    Ég hef lesið hér alloft 12. gr. almannatryggingalaga, einkum og sér í lagi b-liðinn, og ég ætla enn að gera það og þá geta menn spurt á eftir hvort örorkumat sé einungis læknisfræðilegt. Þar segir um þá sem rétt eigi á örorku, með leyfi hæstv. forseta: ,,... eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn *y1/4*y þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.``
    Ætlar fyrrv. hæstv. heilbrmrh. að fullyrða eftir þennan lestur að örorkumat sé eingöngu læknisfræðilegt? Það er alveg hárrétt, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að það er ekki síður félagslegt. Það hefur margsinnis verið minnst á það og komið fram í þessari umræðu að tveir menn með nákvæmlega sömu fötlun geta verið öryrkjar á afar mismunandi stigi einfaldlega vegna þess að annar kynni að hafa sinnt starfi sem hann getur haldið áfram að sinna þrátt fyrir fötlunina á meðan hinn hefur enga möguleika á því.
    Hv. 3. þm. Reykv. sagði einnig áðan að þetta mál hefði ekki hlotið neina meðferð í nefndinni. Það hefði ekki verið leitað umsagnar utan þinghússins. Þetta er í sjötta sinn sem þetta mál er til afgreiðslu í ýmsu formi í hv. heilbr.- og trn. Ég lét dreifa í möppur nefndarmanna umsögnum sem borist hafa gegnum árin, m.a. á síðasta þingi, frá öllum þeim aðilum sem málið kann hugsanlega að varða. Allir mæla með að úr þessu verði bætt, að fólk geti leitað til einhvers aðila um ágreining um örorkumat. Við sáum hreinlega ekki nokkra ástæðu til þess að biðja um þessar umsagnir einu sinni enn frá sömu aðilum.
    Ég get alveg fullvissað hv. 3. þm. Reykv. um að læknafélagið mundi mæla mjög með þessari afgreiðslu. Það er ekki síður vandamál

læknastéttarinnar en sjúklinganna hversu lítið tillit er oft tekið til álits þeirra lækna sem best þekkja sjúklinginn og best vita hvers hann er megnugur og hvers hann var megnugur eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á áðan. Það er þetta sem við viljum reyna að bæta úr. Ég lagði til að sérstök áfrýjunarnefnd yrði skipuð. Menn vildu ekki ganga svo langt. Ég beygði mig fyrir því. Það hlaut ekki hljómgrunn. Hæstv. ráðherra og tryggingaráð sjálft vildi halda þessu verkefni inni í tryggingaráði. Þá held ég að það sé tvímælalaust til mikilla bóta að fólk með sérþekkingu á félagslegum atriðum, lagalegum og læknisfræðilegum geti verið til kallað þegar ágreiningur er uppi.
    Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess að þetta mál verði afgreitt og sent til hv. Ed. Mér finnst það satt að segja ekki vansalaust ef við eigum að fara heim af þessu þingi án þess að hafa ráðið bót á þessu vandamáli.
    Ég varð ekki vör við annað en að hv. 17. þm. Reykv. væri heldur hlynntur þessu máli í upphafi og satt að segja held ég að við höfum ekki gert okkur neina grein fyrir því, þeir fimm hv. þm. sem afgreiddu málið út úr nefndinni, að þar væri andstaða uppi. Hv. 3. þm. Reykv. hafði áður lýst því að hún kynni að hafa á þessu aðra skoðun, en þar gildir auðvitað að við gátum ekki við því gert að þau voru ekki á þeim fundi sem málið var afgreitt. En ég teldi það mikinn skaða ef þetta mál næði ekki fram að ganga á þessu þingi.