Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Í tilefni af því að frsm. þessa máls sá ástæðu til að láta mín getið í ræðu sinni vildi ég mega beiðast undan því að hún sé að túlka mín viðhorf í þessu máli eða greina frá því að hún hafi ekki orðið vör við annað en ég væri heldur hlynntur þessu máli ef marka mætti þátttöku mína í nefndarstörfunum. Ég hafði fullan fyrirvara á því að við hv. 3. þm. Reykv. fengjum tækifæri til að ráða ráðum okkar í þessu máli þegar þetta var til umræðu á fundum áður en málið var tekið út úr nefndinni. --- Ekki á þeim fundi sem afgreiddi málið, en þá vorum við hv. 3. þm. Reykv. ekki viðstödd.
    Ég vildi láta þetta koma fram. Ég tel að það sé heldur óvenjulegt að vera að greina frá því hvað menn hafi orðið varir við hvað það snertir hverjir hafi verið heldur hlynntir og heldur á móti. Vil ég láta það koma fram að ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. í öllu því sem hún hefur hér látið frá sér fara.