Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Aðeins til að útskýra þann misskilning sem er uppi vegna þess að þetta er heimild. Hér er um það að ræða að tryggingaráð hafi heimild til að kalla til sín sérfræðinga í hverju tilviki og þau eru jafnmörg og mennirnir eru margir sem leituðu hugsanlega til ráðsins. Þessi heimild er til þess að tryggingaráð megi kalla til sérfræðinga. Auðvitað kostar það fjármuni. Ég treysti tryggingaráði fullkomlega til að gera það í hverju einasta tilviki. Ég held að það sé alveg óþarfi að gera það að skyldu. Það segir sig sjálft að ef slík mál koma til tryggingaráðs mun það nýta sér þessa heimild. Hér er aðeins verið að gera tryggingaráði mögulegt að kalla til sín stundum lækni, stundum félagsfræðilega menntaðan mann, stundum lögfræðing. Það er ekki víst að í öllum tilvikum þurfi að kalla til alla þrjá, það fer eftir efni máls, en fyrst og fremst er nauðsynlegt að ráðið hafi þessa heimild. Ég efast ekki um að ráðið nýti sér hana í öllum tilvikum. Ég held að það sé alveg óþarfi að gera það að skyldu á þennan hátt. Þetta er fyrst og fremst sett þarna inn til þess að ráðið hafi fjármuni til að kalla þetta fólk til. Ég held þess vegna að það séu alveg óþarfar áhyggjur að þetta sé ekki gert að skyldu.
    Ég vildi aðeins upplýsa hvernig þetta er hugsað.