Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Það er aðeins út af því sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. um ákvæði 3. gr. frv. þar sem kveðið er á um hverjir skuli kjósa eða tilnefna í stjórnir sjúkrasamlaga. Þar er um að ræða orðalagsbreytingu vegna breytinga á sveitarstjórnarlögum sem áttu sér stað á árinu 1986. Auðvitað er það rétt að þær orðalagsbreytingar sem hér eru lagðar til eru heldur seint fram komnar ef mætti orða það svo. En þegar þetta frv. var til meðferðar og vinnslu í heilbrmrn. var svo sem ekki alveg víst hver yrðu afdrif verkaskiptafrumvarpsins og þess vegna þótti bæði rétt og eðlilegt að það væri ljóst í lögum um almannatryggingar hverjir skyldu tilnefna í stjórnir sjúkrasamlaga. Það er aðeins verið að breyta því hér, vegna þess að sýslunefndirnar eru ekki lengur til, að það séu héraðsnefndir sem hafa það hlutverk. Fari verkaskiptafrv. í gegn og sjúkrasamlögin verði þar með niður lögð fellur þetta auðvitað niður og þarf ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því. Ég sé ekki að það sé stóra málið. Það má kannski segja að þetta sé örlítið klúðurslegt fyrir það hvað það er seint á ferðinni, en efnislega stendur það alveg fyrir sínu og er alveg skýr tilgangurinn með því þegar þetta var samið.
    Ég hef kannski ekki talað alveg nógu skýrt þegar ég var að segja frá frv. sem hefði verið til meðferðar og í smíðum í heilbrmrn. um sl. áramót og hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði að umtalsefni aftur. Það var út af fyrir sig ekkert kveðið á um í því frv. að héraðslæknar skyldu framkvæma örorkumat. Það var í því frv. verið að tala um að gera héraðslækna í tveimur umdæmum að embættislæknum sem hefðu ýmis hlutverk sem heilbrigðisþjónustan mundi síðan fela þeim. Ég gat þess aðeins að það hefði svo sem komið til greina og gæti komið til greina og hefur komið til tals að verði það að ráði að gera héraðslækna í hverju umdæmi að embættislæknum fái þeir hlutverk sem þetta. En það réði ekki neinum úrslitum um framgang málsins eða hvort það var lagt fram eða ekki. Það var ekki lagt fram vegna þess að við töldum rétt að bíða eftir afdrifum verkaskiptamálsins og þá þyrftum við að gera ýmsar aðrar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og taka tillit til þess hvernig þeim málum reiddi af og hvaða áhrif verkaskiptafrv. hefði á ýmsa þætti þeirrar löggjafar og þá einkum stjórnunarlega þætti vegna þess að verkefni eru flutt í svo miklum mæli frá sveitarfélögum til ríkis þar sem ríkið greiðir eftir það allan kostnað af heilbrigðisþjónustunni en sveitarfélögin ekki. Það mun koma til athugunar vonandi í sumar og á haustmánuðum og þá er nauðsynlegt að fjalla ítarlega um hlutverk héraðslæknanna og þá hugsanlega hvort þetta eigi að vera eitt af þeirra verkefnum sem hér er verið að tala um, þ.e. að fjalla um og framkvæma örorkumat.
    Að lokum, herra forseti, vil ég segja að ég vil ekki hafa áhrif á afgreiðslu þingsins á þessu máli tímalega séð. Ég set mig ekki á móti því ef ástæða þykir til

eða samkomulag er um að skoða þetta mál eitthvað nánar. Mín áhersla er sú fyrst og fremst að málið fái afgreiðslu á þessu þingi. Það er mjög brýnt, bæði af þeirri ástæðu að það mál sem hér er verið að fjalla um er búið að vera lengi og oft til meðferðar á Alþingi og nauðsynlegt að fá í það einhverja niðurstöðu og taka til þess afstöðu og ég held að það skref sem hér er stigið sé mikilvægt skref í þá átt sem menn hafa rætt um á undanförnum árum og svo kannski ekki síður vegna ákvæða í 6. gr. frv. þar sem kveðið er á um tilvísunarskylduna. Af þeirri ástæðu er mjög brýnt að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi sem nú situr og verður þá líklega að flokkast undir það, a.m.k. af minni hálfu, að vera eitt að forgangsmálum ríkisstjórnar að fá þetta frv. afgreitt á þessu þingi.