Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. staðhæfði tvennt sem var rangt, einfaldlega ekki satt.
    Í fyrsta lagi sagði hv. þm. að þetta mál hefði margsinnis farið til umsagnar. Þetta er rangt. Það hefur aldrei farið til umsagnar. Það er stutt síðan það var flutt á þingi og það er með öðrum efnisatriðum, öðrum þáttum og öðrum lausnum en áður hafa verið sýndar hér á þinginu og það hefur aldrei farið til umsagnar og það hefur enginn verið kallaður til viðræðu við nefndina.
    Hitt atriðið var alrangt líka. Hv. þm. hélt því fram að ég hefði ævinlega staðið í vegi fyrir eða barist gegn tillögum um áfrýjun á þeim málum sem hér hafa verið til umræðu. Þetta er fullkomlega rangt og það getur hv. þm. séð í þingtíðindum ef hún vill, en ég geri ekki ráð fyrir því í allri þeirri fljótaskrift sem er á verkum hennar þessa dagana að hún hafi tíma til þess, en kannski einhvern tíma seinna. Ég stóð upp hér í þinginu til að lýsa sérstökum stuðningi við frv. sem var flutt um áfrýjun. 1. flm. var hv. þáv. þm. Svavar Gestsson og gott ef hv. 13. þm. Reykv. var ekki meðflm. Það frv. studdi ég. Það voru aðrir sem stöðvuðu það frv. en ég. Ég kann því illa að þingmaður sem er forseti Sþ. leyfi sér að hafa slíkt í frammi, rangar staðhæfingar eins og hér hefur verið gert, og að auki er ætlast til þess að máli sé þrælað í gegn með þessum hætti eins og gert hefur verið að fjarstöddum þeim sem athugasemdir hafa að gera. En til hvers var þá það sem hv. þm. barðist svo mjög fyrir og með árangri, að það væri fenginn sérstakur starfsmaður fyrir nefndirnar ef það var ekki einmitt m.a. til að kynna nefndarmönnum að nú ætti að afgreiða tiltekin mál á tilteknum fundi? Það er gert og er til fyrirmyndar í menntmn. þessarar deildar og það færi betur að formaður heilbr.- og trn. tæki upp sams konar vinnubrögð.