Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um félagsmálaskóla alþýðu sem fyrir liggur á þskj. 920 eins og það hefur nú verið afgreitt frá Ed.
    Málefni félagsmálaskóla alþýðu hafa nokkrum sinnum áður komið til umfjöllunar á Alþingi án þess að niðurstaða hafi fengist. Árið 1973 var lagt fram frv. um skólann. Annað hliðstætt frv. var lagt fram á 100. löggjafarþingi 1978. Það hlaut sömu örlög og hið fyrra og varð ekki afgreitt.
    Það frv. sem nú er lagt fyrir Alþingi er að stofni til byggt á frumvörpunum frá árunum 1973 og 1978. Þó hafa verið gerðar á því nokkrar veigamiklar breytingar. Þær virðast hafa verið í rétta átt vegna þess að frv. hefur hlotið mjög jákvæðar undirtektir Ed. Alþingis og það gefur vonir um að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.
    Eins og í fyrri frumvörpum er gert ráð fyrir að stofnaður verði félagsmálaskóli alþýðu. Markmiðið með stofnun skólans er að skapa starfandi og verðandi forustumönnum samtaka launafólks, áhugamönnum um störf verkalýðshreyfingarinnar og hverjum félaga hennar sem njóta vill möguleika til haldgóðrar fræðslu í þeim greinum sem tengdastar eru starfi alþýðusamtakanna. Bent hefur verið á margvísleg rök sem mæla með öflugum stuðningi hins opinbera við skólahald alþýðusamtakanna. Þar vega e.t.v. þyngst sífellt flóknari samningar aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Samningagerð þeirra er nú orðin vandasamt verk sem krefst mikillar þekkingar jafnt á högum þeirra sem hún snertir hverju sinni sem og á félagsmálalöggjöf þjóðarinnar, svo sem vinnulöggjöf, löggjöf um öryggi og hollustu á vinnustöðum, á sjó og landi, trygginga- og skattalöggjöf og rekstri atvinnuveganna og þjóðarbúsins í heild. Enn fremur er nauðsynleg þekking á alþjóðasamþykktum og tillögum um vinnumál sem hafa verið afgreiddar af ýmsum alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að.
    Fleiri atriði hníga í sömu átt. Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á atvinnulífinu í heiminum og bendir margt til þess að þær verði örari í nánustu framtíð. Gerbreytt viðhorf til samskipta stjórnenda og starfsmanna og réttur starfsfólks til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt krefjast þess að samtök launafólks haldi vöku sinni í fræðslumálum.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlega í einstakar greinar frv. Ég vil þó vekja athygli á nokkrum veigamiklum breytingum frá fyrri frumvörpum um félagsmálaskóla alþýðu. E.t.v. felst þýðingarmesta breytingin í 1. gr. Í fyrri frumvörpum var gert ráð fyrir því að Alþýðusamband Íslands stæði eitt að skólanum. Samkvæmt þessu nýja frumvarpi skal skólinn starfa á vegum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er rétt að minna á að í þessum tvennum heildarsamtökum launafólks eru um að bil 80 þúsund félagsmenn.
    Í 2. gr. frv. er kveðið á um hlutverk skólans. Fram kemur að það felst í að mennta fólk í samtökum launafólks. Markmiðið er að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til þess að bæta lífskjör verkafólks.

    Samkvæmt 3. gr. skal þessu markmiði náð með fræðslu um hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar, sögu, skipulag, starfshætti og stefnu. Einnig skal veita fræðslu á sviði félagsfræði og hagfræði, auk meginatriða íslenskrar félagsmálalöggjafar.
    Samkvæmt greininni er heimilt að veita fræðslu í almennum námsgreinum, svo sem stærðfræði, íslensku og erlendum tungumálum. Enn fremur skal áhersla lögð á þjálfun nemenda í að setja fram hugsanir sínar í ræðu og riti og gera þá færa um að taka að sér trúnaðarstörf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.
    Í 4. gr. frv. er fjallað um skilyrði sem sett eru fyrir þátttöku í námi í félagsmálaskóla alþýðu. Um er að ræða tvö almenn skilyrði, þ.e. aldur og aðild að stéttarfélagi. Í greininni felst efnisbreyting frá fyrri frumvörpum þar sem tiltekinn aldur var gerður að skilyrði fyrir skólavist eða þátttöku í starfi skólans. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að heimilt sé að setja slíkt skilyrði í reglugerð. Sama á við um aðild að stéttarfélagi.
    Ein af ástæðunum fyrir þessari breytingu er sú að talið er rétt að halda opinni þeirri leið að bjóða fólki sem er tímabundið utan vinnumarkaðar eða sem á í erfiðleikum að finna vinnu og ekki er í verkalýðsfélagi þátttöku í námi á vegum skólans. Hér koma m.a. til álita þeir sem hafa verið heimavinnandi eða nemendur í framhaldsskólum sem gætu átt möguleika á að taka málefni verkalýðshreyfingarinnar í félagsmálaskóla alþýðu sem valgrein. Hins vegar er rétt að leggja áherslu á mikilvægi þess að skólinn gæti sett sem skilyrði fyrir inngöngu að nemendur hafi starfað á almennum vinnumarkaði og tekið þátt í störfum stéttarfélags. Að öðru jöfnu er það forsenda þess að hægt sé að tileinka sér námið með virkum hætti.
    Með tilliti til þeirra umræðna sem urðu á Alþingi um fyrri frumvörp fjallaði vinnuhópurinn sem samdi þetta frv. sérstaklega um stöðu félagsmálaskólans í stjórnkerfinu. Niðurstaða hans kemur fram í 5. gr., en þar er tekið fram að félmrn. fari með málefni skólans. Vinnuhópurinn taldi þennan hátt eðlilegan og vísaði í því sambandi til 4. gr. reglugerðar nr. 96/1969, um Stjórnarráð Íslands. Í greininni er m.a. kveðið á um að félmrn. fari með vinnu, þar á
meðal stéttarfélög launafólks og atvinnurekenda. Enn fremur er gert ráð fyrir margvíslegum afskiptum félmrn. af vinnumálum og samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins í IX. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála.
    Á því skal vakin athygli að Ed. samþykkti eina breytingu á 5. gr. sem felst í því að á eftir orðunum ,,Menningar- og fræðslusamband alþýðu`` í 1. málsl. 1. mgr. komi: og skal formaður sambandsins vera einn þeirra. Ég er samþykk þessari breytingu og tel hana til bóta.
    Í þessu nýja frv. er mun ítarlegar en áður fjallað um fjármál. Í 8. gr. er tekið fram að rekstrarkostnaður skólans skuli að fullu greiddur úr ríkissjóði annar en rekstrarkostnaður heimavistar sem greiðist að 80%

hluta. Einnig að stofnkostnaður kennsluhúsnæðis skuli greiddur að 80% hluta úr ríkissjóði og skuli það sama gilda um heimavist. Þessi ákvæði eiga sér hliðstæðu í lögum nr. 51/1976, um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, og lögum nr. 31/1977, um Skálholtsskóla. Í þessum lögum hvorum tveggja er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður skuli greiddur að fullu annar en rekstrarkostnaður heimavistar þar sem hennar er þörf, en til hennar skal veita fjárveitingu er nemur 80% af kostnaði. Einnig er tekið fram að stofnkostnaður kennsluhúsnæðis skuli greiddur úr ríkissjóði að 80% hluta og skuli það sama gilda um heimavist þar sem hennar er talin þörf. Þess skal getið að auk Skálholtsskóla gilda sömu reglur um Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja geri með sér samning um skiptingu annars rekstrar- og stofnkostnaðar. Verði skólinn lagður niður skulu eignarráð yfir því húsnæði sem hann kann að hafa til umráða færast til ríkisins í samræmi við stofnkostnaðarframlög þess. Komi upp ágreiningur um eignaskiptingu skal dómkveðja þrjá óvilhalla menn til að kveða á um skiptinguna. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við hliðstætt ákvæði í lögum um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi.
    Áætlaður árlegur stofn- og rekstrarkostnaður er talinn vera 27 millj. rúmar og er miðað við áætlun um starfsemi skólans sem gerð er grein fyrir í fskj. I. Í fskj. II kemur fram nánari sundurliðun á kennslukostnaði og kostnaði vegna heimavistar.
    Herra forseti. Mikilvægi jákvæðra samskipta aðila vinnumarkaðarins fyrir efnahagsþróunina er öllum ljós. Verkföll og aðrir árekstrar á vinnumarkaðnum leiða til óstöðugleika sem dregur úr sókn til bættra lífskjara. Aðgerðir sem stuðla að betri þekkingu á samfélagsmálum og vekja athygli á fleiri leiðum að því sameiginlega markmiði að bæta lífskjörin eru eitt af því sem er af hinu góða. Þetta hefur verið og er markmið með starfrækslu félagsmálaskóla alþýðu.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.