Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Mér finnst frv. þetta um margt býsna undarlegt. Við erum nú að fjalla um í félmn. Nd. frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar er ein grein svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Stofnkostnaður tónlistarskóla greiðist af stofnendum hans.`` Hér er hins vegar verið að fjalla um frv. þar sem lagt er til að fræðslustarfsemi á vegum almannasamtaka úti í bæ, ef svo má að orði komast um launþegahreyfinguna, sé greidd að meira og minna leyti af ríkissjóði. Hér er sem sagt verið að tala um að bæta enn einum pinklinum á ríkissjóð í starfsemi sem ekkert óeðlilegt er við að sé á höndum aðila utan hins opinbera kerfis og á þeirra kostnað.
    Alþfl. er býsna ötull við það þessa dagana að koma með ný frumvörp um útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég nefni hagstofnun landbúnaðarins sem er eitt af áhugamálum Alþfl. á þessu þingi að því er manni skilst, umhverfismálaráðuneyti og fleira í þessum dúr. Ég tel að þetta sé öfugþróun og að í þeirri stöðu sem ríkisfjármálin almennt eru í eigi menn að varast að binda ríkissjóði nýja bagga sem taka sig saman þótt hver og einn sé lítill og verða stórar fjárhæðir um síðir. En það er kannski ekki aðalatriðið í sambandi við þetta mál. Aðalatriðið finnst mér vera að það er óþarfi að setja lög um þessa starfsemi. Það þarf engin sérstök lög um félagsmálaskóla alþýðu. Það er ekkert sem bannar alþýðusamtökunum að halda úti slíkum skóla án sérstakra laga um það. Það eru engin lög um Stjórnunarskóla Íslands eða fjölmarga aðra aðila í þjóðfélaginu sem halda úti námskeiðahaldi og fræðslu sem er í grundvallaratriðum ekki ólík því sem hér er verið að fjalla um.
    Ég held að það væri nær að huga að þessu atriði, auk þess sem það er ósamræmi í því að ætla til að mynda stofnendum tónlistarskólanna að greiða allan stofnkostnað þar en ríkissjóði að greiða stofnkostnað, heimavistarkostnað að 80% og allan rekstrarkostnað í skóla þessum sem hér er verið að tala um.
    Ég skal ekki gera lítið úr því, herra forseti, að nauðsynlegt sé að efla fræðslu hjá alþýðusamtökunum á þeirra vegum og að gefa trúnaðarmönnum verkalýðsfélaganna og öðru fólki úr þeim samtökum kost á margs kyns fræðslu, en mér finnst engu að síður ærið kyndugt hvernig hlutverk þessa skóla er orðað, en í 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk skólans er að mennta fólk úr samtökum launafólks með það fyrir augum að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til þess að vinna að bættum lífskjörum verkalýðsstéttarinnar.``
    Ég hélt satt að segja að marxiskt orðalag frá 19. öld ætti ekki heima í íslenskum lögum árið 1989 og að orðalag eins og ,,verkalýðsstéttarinnar`` til aðgreiningar frá einhverjum hópum Íslendinga sé heldur vafasamt nú á dögum. Af hverju á ekki að vinna að bættum lífskjörum Íslendinga allra eða alls almennings?
    Ég held að margt sem kemur fram í frv. og þessari greinargerð þurfi að athugast mun betur. Ég tel að það sé mikil spurning hvort fræðsla af þessu tagi eða

skólahald af þessu tagi, ef frv. sem þetta yrði samþykkt, ætti heima í félmrn. en ekki í hinu almenna menntakerfi á vegum menntmrn. Hér er gert ráð fyrir skóla sem á að vera fyrir utan hið almenna fræðslukerfi og skólahald þar sem engin sérstök fræðsluskylda hvílir á ríkinu. Engu að síður tel ég vafasamt að halda úti slíkri starfsemi á vegum einstaks tiltekins fagráðuneytis. Það er að vísu þannig að til að mynda landbúnaðarskólarnir eru á vegum landbrn. En einmitt þetta með landbúnaðarskólana hefur verið umdeilt mál. Hér er þá verið að stofna til sams konar ágreinings um þetta atriði og verið hefur um þá skóla.
    Ég skal ekki hafa uppi langa ræðu um þetta, herra forseti, en áskil mér allan rétt til þess að um þetta mál verði fjallað ítarlega í hv. félmn. og til kvaddir þeir aðilar sem gerst til þekkja. Það er ekki bara svo að hér sé verið að baka ríkissjóði skuldbindingu sem áætlað er að sé tæpar 30 millj. á hverju ári. Það eru líka ákveðin grundvallaratriði, sem ég hef lítillega drepið á í sambandi við þetta mál, sem mér finnst að þurfi að kanna mun betur.