Lagmetisiðnaður
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 767 um breyting á lögum nr. 58 frá 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, með áorðnum breytingum, eins og þetta frv. kemur frá hv. Nd.
    Þetta frv. er samið í iðnrn. Það er flutt til þess að veita Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins heimild til að eignast hlutabréf í starfandi hlutafélögum eða eiga aðild að stofnun nýrra hlutafélaga í því skyni að auka framleiðni, vöruþróun og markaðsstarfsemi í lagmetisiðnaði. Frv. er flutt m.a. í ljósi þeirra erfiðleika sem staðið hafa í lagmetisiðnaðinum að undanförnu af ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér en þingheimi er kunnugt um. En stjórn sjóðsins og sölusamtök lagmetis hafa mælst til þess að slík heimild verði veitt og mun hún geta komið að gagni til þess að styrkja fyrirtækin í þessari grein.
    Ég ætla ekki að fjölyrða hér um þá erfiðleika sem upp komu í lagmetisiðnaðinum á liðnum vetri, en ég skipaði 17. febr. sl. sérstakan starfshóp til að kanna stöðu greinarinnar og benda á leiðir til þess að styrkja markaðsstöðu hennar. Á grundvelli tillagna þessa starfshóps fjallaði ríkisstjórnin síðan um málið á fundi sínum 7. mars sl. og samþykkti svo 14. sama mánaðar eftirfarandi aðgerðir sem ég ætla að rekja hér, með leyfi hæstv. forseta:
    1. Að standa tímabundið straum af vaxtakostnaði vegna birgða og umbúða sem selja átti fyrirtækjunum Aldi og Tengelmann í Vestur-Þýskalandi.
    2. Að veita 7 millj. kr. til samstarfsverkefnis sölusamtaka lagmetis og Útflutningsráðs til söluátaks á lagmeti af þessu tilefni.
    3. Að skipuleggja og kosta sérstakt átak til að selja óseldar birgðir á markaði þar sem aðstoð utanrrn. gæti einkum komið að haldi og er þar einkum haft í huga að koma lagmeti í auknum mæli inn á markaði í Austur-Evrópu og í Austurlöndum fjær, einkum Japan.
    Jafnframt þessum þríþættu aðgerðum hafa iðn.- og sjútvrn. beint því til sölusamtaka lagmetis, Ríkismats sjávarafurða og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins að þær taki upp formlegt samstarf til að gera átak til að bæta gæði framleiðslunnar í lagmetisiðnaðinum. Sölusamtökin hafa þegar stigið mikilvægt skref í þessu efni með stofnun sérstakrar tæknideildar á sínum vegum. Enn fremur er í gangi vinnuáætlun til að samræma íslenskt gæðaeftirlit á sviði lagmetis þeim sameiginlegu kröfum og stöðlum sem unnið er nú að í Evrópu vegna þróunar innri markaðar Evrópubandalagsins, en þá er stefnt að því að samræmdar kröfur gildi um gæði og gæðaeftirlit, umbúðir og efni sem leyfð eru í slíkri framleiðslu um gjörvalla Evrópu. Sérstakur hópur Ríkismatsins, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sölusamtakanna vinnur nú að nánari stefnumótun um gæðamál.
    Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins hefur á árunum 1987--1988 og það sem af er þessu ári veitt lán og styrki til vöruþróunar og til þess að bæta gæði framleiðslunnar í lagmetisiðnaði samanlagt að fjárhæð 5,3 millj., til þróunar og til þess að bæta gerð umbúða

4,8 millj. til þeirra hluta og til tæknideildar sölusamtakanna samanlagt 5,1 millj. Það er gert ráð fyrir auk þess að Þróunarsjóður lagmetis styrki gæðaátakið sem ég nefndi og nú er hafið. Höfuðáherslan í starfi sjóðsins hefur hins vegar verið á sviði markaðsmála en sjóðurinn hefur á liðnum árum veitt rúmlega 10 millj. árlega til þess að markaðssetja lagmeti og leggja lið við kynningu á því á vörusýningum og á annan hátt. Fjárhagsstaða sjóðsins er allsterk eins og fram kemur í grg. þessa frv. Mér finnst því eðlilegt að gefa honum rýmri heimildir til að efla framleiðslu, vöruþróunar- og markaðsstarfsemi í lagmetisiðnaði með þeim hætti sem gerð er tillaga um í frv., þ.e. með beinni þátttöku í hlutafélögum.
    Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta málefni en vildi láta þess getið að um það hefur tekist góð samstaða í hv. Nd. og óska eftir því að frv. fái skjóta meðferð í þingdeildinni til þess einkum að unnt verði að koma að liði á þennan hátt við þau fyrirtæki sem nú berjast í bökkum.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. og 2. umr.