Verkfræðingar
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt. Eins og fram kemur í nál. felur frv. í sér að orðið ,,landslagshönnuður`` verði lögverndað starfsheiti.
    Nefndin hélt nokkra fundi um frv. og komu þeir Þráinn Hauksson og Einar Sæmundsson frá Félagi ísl. landslagsarkitekta (FÍLA) til viðræðna við nefndina. Fram kom að aðrir faghópar, sem starfa á sama grundvelli og landslagshönnuðir, hafa þegar fengið starfsheiti sitt lögfest. Af þeirri ástæðu telur nefndin rétt að umræddur faghópur verði ekki undanskilinn. Nefndin telur hins vegar komið í óefni hvað varðar lögverndun starfsheita og leggur á það þunga áherslu að við endurskoðun byggingarlaga, sem nú er unnið að, verði gerð róttæk breyting í þessum efnum. Nefndin er sammála um að stefna eigi að því að afnema lögverndun starfsheita.
    Það kemur fram í nál. að vegna þess að þetta er sá eini starfshópur sem ekki hefur þessa lögverndun þá þótti mönnum ekki fært að taka þá eina út úr eða skilja þá eina eftir. Þess vegna er samþykkt að af þessu verði nú. En eins og segir í lok nál. telja nefndarmenn að brýn nauðsyn sé á því að farið verði í þessi mál á róttækan máta og við Íslendingar förum sömu leið og gerist í nágrannalöndunum og Bandaríkjunum. Það er verið að hverfa frá lögverndun starfsheita þar sem það var, en í Bandaríkjunum hefur þetta aldrei komið til. Við teljum að hæfni einstaklingsins til að vinna verkin eigi að ráða, en ekki veita einstökum starfshópum sérréttindi sem oft á tíðum og kannski oftast verða til þess að aðrir eru útilokaðir, jafnvel mjög hæfir aðilar.
    Niðurstaðan er sú að mæla með samþykkt frv.