Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þetta mun ekki vera í fyrsta skipti sem frumvörp um að breyta ríkisfyrirtækjum yfir í hlutafélög koma hér fyrir hv. deild, en rökin, ef rök skyldi kalla, sem færð eru fyrir því að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum eru hin sömu, að þessi fyrirtæki þurfi að fá á sig hlutafélagastjórn, hlutafélagaform, og það samræmist betur almennum rekstri í þjóðfélaginu.
    Nú er það svo með þetta fyrirtæki sem hér um ræðir að ætlast er til að það sinni og það hefur nærri eingöngu sinnt ríkisverkefnum og samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði hér er enn ætlast til að svo verði. Það eru vitaskuld mjög mikil fríðindi og sérstök aðstaða fyrir eitt fyrirtæki að njóta þess að prenta og sinna prentstörfum ríkisins og ég sé ekki og hef alls ekki heyrt þau rök sem mæla með því að gera ríkisfyrirtæki, fyrirtæki ríkisins sem sinna störfum ríkisins eða eru að einhverju leyti einokunarfyrirtæki eins og þetta er raunverulega með því að hafa meginhluta ríkisprentunar á sínum höndum, að hlutafélögum.
    Mér sýnist breytingin vera sáralítil. Iðnrh. fer enn með eignarréttinn og meiningin er sú að hlutabréf öll verði í eigu ríkisins. Iðnrh. fer nú með stjórn fyrirtækisins, skipar forstjóra þess. Ég sé ekki mikinn mun annan en þann að þessu hlutafélagi verður sjálfsagt kosin stjórn sem verður að öllum líkindum undir flestum kringumstæðum skipuð eftir ósk iðnrh. Ég sé ekki að þarna þurfi öðru að breyta en því að þetta ríkisfyrirtæki verði með stjórn sem iðnrh. í þetta eða hitt skiptið skipar. Lýðræðislegra væri þó að breyta því á þann veg að Alþingi kysi menn í stjórn og að það væru samþykkt lög um þetta ríkisfyrirtæki sem kannski ýmis önnur á þann veg að ríkið ætti fyrirtækið og Alþingi kysi stjórnina.
    Ég þarf að heyra einhver ákveðin rök fyrir því að það sé eingöngu formsins vegna nauðsynlegt að gera þessa hluti sem hér er verið að leggja til. Ég hef ekki fundið fyrir neinu eða heyrt neitt um það sem gerir rekstur fyrirtækisins hagkvæmari eða betri á einn eða neinn máta.