Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða. Flutningsmenn þessa frumvarps eru ásamt mér þeir hv. 8. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykn.
    Hér er um að ræða hið mikilvægasta mál þar sem það varðar grundvöll sjávarútvegs landsmanna. Fiskveiðar eru undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og hlýtur svo að vera um ófyrirsjáanlega framtíð. Fiskimiðin umhverfis landið eru sú auðlind sem allt veltur á. Þessi fiskimið eru grundvöllur búsetu í landinu, velferðarríkisins og fjárhagslegs fullveldis þjóðarinnar. Nauðsyn krefur að nýta þessa auðlind af kostgæfni og varúð. Óheft sókn í þessa auðlind leiðir þegar til lengdar lætur til ofnýtingar á fiskstofnunum. Það verður að vernda fiskstofnana en jafnframt þarf að stuðla að hámarksnýtingu þeirra og hagkvæmum rekstri sjávarútvegs fyrir land og þjóð. Til þess þarf að koma stjórn fiskveiða.
    En það er ekki sama hvaða skipan er á stjórn fiskveiða. Því er lagt fram það frv. sem við nú ræðum. Með frv. þessu er lögð til gagngerð breyting frá því sem verið hefur. Það er um að ræða grundvallarbreytingu. Það er lagt til að hverfa frá núverandi kvótakerfi.
    Með lögum nr. 82 frá 28. des. 1983 urðu þáttaskil í stjórn fiskveiða. Áður hafði sjútvrh. vald til þess að ákveða heildarkvóta ef fiskstofn var hættulega ofveiddur og viðkoma hans því í yfirvofandi hættu. Með lögunum frá 1983 var ráðherra auk þess veitt heimild til að skipta heildarafla milli einstakra skipa og er það sú skipan sem nefnd hefur verið kvótakerfi. Þessi lög voru sett til bráðabirgða í tilraunaskyni og giltu árið 1984. Lögin voru síðan endurnýjuð fyrir árið 1985. Enn var þessi nýskipan um aflatakmörk á einstök skip framlengd um tvö ár og síðan um þrjú ár og eiga nú samkvæmt þessu að gilda til ársloka 1990.
    Tilgangur þessarar nýju skipunar um aflakvóta á skip var yfirlýstur sá að koma mætti við betri stjórn og takmörkunum á fiskveiðum. Eftir fimm ár sýnir nú reynslan ótvírætt hvaða árangri kvótakerfið hefur skilað. Megintilgangur þessa kerfis hefur ekki náðst. Við flm. frv. teljum því að ekki dugi annað en að taka upp nýja skipan um stjórn fiskveiða.
    En í hverju hefur þá kvótakerfið brugðist? Til að svara þessu verður að hafa í huga að undirrót vandans sem við hefur verið fengist á undanförnum árum er of mikil sóknargeta fiskiskipastólsins. Þessi sóknargeta hefur boðið heim ofnýtingu fiskstofnanna, einkum þorsks. Við þessu kemur ekki nema tvennt til. Annaðhvort verður að setja hömlur á hagnýtingu fiskiskipanna eða fækka þeim. Gefur auga leið að hagkvæmara er fyrir þjóðarbúið að binda ekki meiri verðmæti í fiskiskipum en nauðsyn krefur til fullnýtingar fiskstofnanna. Hagkvæmara er að fara þá leið að takmarka fjárfestingu við þörfina fremur en að takmarka not þeirra fjárfestinga sem stofnað er til umfram þarfir.
    Það alvarlegasta er að kvótakerfið hefur ekki stuðlað að æskilegri þróun í þessu efni. Í stað þess að

minnka sóknargetu fiskiskipastólsins hefur hún aukist þann tíma sem kvótakerfið hefur verið við lýði. Þetta er ótvírætt samkvæmt upplýsingum á fskj. I með frv. frá Siglingamálastofnun ríkisins fyrir tímabilið 1984 til 1988 þar sem greint er frá flokkun skipastólsins eftir stærð, breytingum sem orðið hafa á tímabilinu og varða fjölda skipa, rúmlestafjölda, nýsmíði, stækkun og endursmíði og úreldingu. Það kemur í ljós að fiskiskipum hefir samtals fjölgað um 121 og smálestatala þeirra aukist um 9879, auk þess sem opnum vélbátum fjölgaði um 162 og smálestatala þeirra jókst um 1725. Þannig hefur fiskiskipastóllinn aukist frá því að kvótakerfið kom til og afkastageta hans langt fram úr því sem aukning smálestatölu bendir til. Það hefur sýnt sig að í kvótakerfinu er innbyggður hvati til að halda á floti hverju fleyi því að hvert haffært skip á sinn útdeilda skammt af afla, hversu óhagkvæmur sem rekstur þess kann að vera, og ekki er svo hrörlegt skip að ekki gagnist til að hljóta úthlutun á veiðiheimild sem hagnýta má sem söluvöru, ef ekki vill betur til.
    Það hefur verið fátt til varnar gegn þessari aukningu á sóknargetu fiskiskipastólsins. Þetta hefur leitt til þeirrar öfugþróunar að fiskiskipastóllinn hefur stöðugt orðið vannýttari. Blasir þetta hvarvetna við og kemur t.d. skýrt fram í reglugerð um stjórn botnfiskveiða 1989 þar sem úthaldsdagar togara á sóknarmarki eru ákveðnir 245 á árinu. Vitað er að togarar á aflahámarki þurfa ekki svo marga daga til að ná sínum leyfilega afla. Hér er orðin mikil breyting til hins verra frá því sem áður var þegar úthaldsdagar togara voru að jafnaði 330 til 360 á ári. Gefur auga leið að þetta ástand er óþolandi fyrir rekstur útgerðarinnar. Þjóðhagslega er ástandið óviðunandi þegar svo er komið að framleiðslutæki sem fjárfest hefur verið í má ekki nota nema þriðjung úr ári.
    Þá bætir ekki úr skák að ekki hafa skilað árangri þessar miklu takmarkanir á hagnýtingu skipastólsins sem ætlað var að tryggja framkvæmd fiskveiðistefnu til verndar fiskstofnunum. Fiskveiðistefnan hefur sýnt sig í fullkomnu haldleysi. Í skýrslu Fiskifélags Íslands á fskj. II með frv. er að finna
upplýsingar um veiði helstu botnfisktegunda. Þar má sjá tillögur sem fiskifræðingar gerðu um veiði hvers árs, ákvörðun stjórnvalda um leyfilegan heildarafla og þá veiði sem raunverulega átti sér stað. Kemur þá í ljós að á kvótatímabilinu hefur stjórnunaraðferðin ekki dugað til að fylgt væri þeim veiðitakmörkunum sem stjórnvöld höfðu ákveðið. Á árunum 1984 til 1988 fór veiði þorsks árlega 54 til 73 þús. smálestir fram úr því sem stjórnvöld höfðu ákveðið. Þetta segir að veiðin hafi þessi ár farið 17,5% til 29,2% fram yfir það sem ákveðið hafði verið. Hér er um að ræða öll fimm árin sem kvótakerfinu hefur verið beitt.
    Reynslan af kvótakerfinu segir sína sögu. Kvótakerfið er ekki til þess fallið að koma í veg fyrir ofnýtingu fiskstofnanna, hvort heldur er með því að minnka sóknargetuna með fækkun skipa eða veiðitakmörkunum á hvert skip. Það orkar ekki tvímælis að kvótakerfið þjónar ekki þeim tilgangi sem

því var ætlað heldur þvert á móti. Kvótakerfið er haldlaus aðferð við stjórn fiskveiða til að stuðla að verndun fiskstofnanna og hagkvæmum rekstri sjávarútvegs fyrir land og þjóð.
    Það er ekki að ófyrirsynju að umræðan um kvótakerfið beinist tíðum að endurbótum á kerfinu. Er þá talað um að sníða annmarkana af kvótakerfinu. En slík viðleitni er vonlaus því að gallarnir felast í miðstýringunni sem er aftur kjarni kvótakerfisins. Meðan kvótakerfið er við lýði byggist framkvæmd þess af þeim ástæðum á miðstýringu. Það má hugsa sér þess vegna að halda kvótakerfinu með því að stíga miðstýringarskrefið til fulls. Það þýðir að með stjórnvaldsráðstöfunum sé séð um að sóknargetan verði ekki meiri en þarf til að fullnýta fiskstofnana. Þetta merkir í framkvæmd að komið verði á ströngu skömmtunarkerfi þar sem stjórnvöld ákveði hvað fiskiskipastóllinn skuli vera stór, hvaða skip skuli úrelda, hve mörg ný skip megi koma til, hvaða skip skuli endurbyggð, hver skuli vera eigandi að hverju skipi og frá hvaða verstöð skuli gera það út. Með þannig framkvæmd kvótakerfisins má kannski hugsa sér að hægt sé að forðast ofnýtingu fiskstofnanna. En þessi leið er dýrkeypt. Þá væri ekki fyrir hendi sú frjálsa samkeppni í fiskveiðum landsmanna sem skapaði þá eindæma framleiðni sem hefur verið undirstaða velmegunar þjóðarinnar. Fyrirmæli stjórnvalda fela ekki í sér neina tryggingu fyrir hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins. Þvert á móti skortir þessa aðferð það sem nauðsyn krefur til að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni. Engin miðstýring eða ríkisforsjá getur í eðli sínu verið fær um að gæta þess. Samkvæmt eðli málsins hljóta ákvarðanir stjórnvalda í þessum efnum að vera að meira eða minna leyti geðþóttaákvarðanir. Þetta er ekki raunhæfur kostur.
    Hverra kosta er þá völ? Það er að hverfa frá kvótakerfinu eins og við flm. leggjum til með frv. Það er fólgið í því að aflatakmarkanir séu ekki bundnar við skip, heldur sé hverju einstöku skipi frjálst að afla svo sem það er fært um innan þeirra marka sem hámarksafli úr hverjum einstökum fiskstofni leyfir. Með þessum hætti verður sókn og keppni sjómanna komið við og heilbrigðri endurnýjun í stéttinni. Afburðamennirnir fá að njóta sín. Skip með góðan rekstrargrundvöll fá að skila þeim arði í þjóðarbúið sem efni standa til. Úrelding bíður þeirra skipa sem haldið hefur verið á floti einungis vegna kvótakerfisins. Kaup og sala skipa verður óhindruð af kvótahagsmunum. Verstöðvar fá að njóta aðstöðu sinnar til fiskimiðanna þannig að stuðlað sé að hagkvæmri verkaskiptingu í atvinnulífi landsmanna eftir byggðarlögum og með því eflt þjóðhagslegt gildi og heildarafrakstur fiskveiða.
    En hvernig leiðir þá aukið frelsi til hagkvæmni í fiskveiðum? Sú skipan sem frv. leggur til felur í sér það úrval sem þarf að fara fram til að fækka fiskiskipum og minnka þannig sóknargetuna til samræmis við það sem nægir til að fullnýta fiskstofnana. Slíkt úrval geta engar

stjórnvaldsákvarðanir gert. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða. Þeir halda velli sem kunna best til verka. Hinir falla út. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins. Þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Þannig gæti sóknargetunni miðað þegar til lengdar lætur í átt til jafnvægis við fiskstofnana svo að beita þurfi sem minnstum veiðitakmörkunum.
    En allt tekur sinn tíma. Til að flýta fyrir þeirri þróun að fiskiskipastóllinn verði ekki stærri að sóknargetu en hámarksnýting fiskstofnanna krefur þarf að gera sérstakar ráðstafanir. Þess vegna er gert ráð fyrir í frv. að stofnaður verði úreldingarsjóður fiskiskipa til að styrkja útgerðina til að taka af skipaskrá skip sem ekki eru hagkvæm til reksturs. Þarf þá að vera skilyrði fyrir aðstoð úr úreldingarsjóði að ekki komi til ný skip í stað þeirra sem úrelt eru. Slíkur úreldingarsjóður nær tilgangi sínum þegar aflétt hefur verið tregðunni á samdrætti í fiskiskipastólnum sem fylgir kvótakerfinu. Þá eru sköpuð skilyrði til þess að gera myndarlegt átak sem fljótlega leiddi til verulegrar minnkunar á sóknargetu fiskiskipastólsins.
    Samt sem áður gerir frv. ráð fyrir sérstökum reglum um endurnýjun
fiskiskipastólsins. Til frambúðar varðar mestu að ekki verði ótímabær aukning á sóknargetu fiskiskipastólsins. Verða því að vera fyrir hendi reglur um endurnýjun fiskiskipastólsins ef á þarf að halda. Til öryggis er því lagt til að komið verði á þeirri skipan að endurnýjun fiskiskipastólsins megi ekki leiða til stækkunar hans ef sóknargetan er umfram það sem nægir til að tryggja hámarksnýtingu fiskstofnanna. Til þess að framkvæma þessa stefnu er nauðsynlegt að fyrir liggi sem gleggst hver sóknargeta fiskiskipastólsins er á hverjum tíma. Þess vegna er gert ráð fyrir að hverju fiskiskipi skuli ákveðin sóknargeta þannig að metið sé það aflamagn sem skipið hefur burði til að veiða á hverju ári. Þetta á ekkert skylt við hvað skip megi veiða mikið, því að aflatakmörk á hvert skip hverfa með afnámi kvótakerfisins. Hins vegar á með þessum hætti að geta legið fyrir á hverjum tíma sóknargeta hvers skips og hver samanlögð sóknargeta fiskiskipastólsins er. Þannig þjónar þetta þeim tilgangi að handhægar upplýsingar geti jafnan verið fyrir hendi þegar til þarf að taka við stjórn fiskveiða.
    Fleira þarf að koma til við stjórn fiskveiða en hér hefur verið vikið að. Stjórn fiskveiða er margslungið mál. Þannig getur verið að ekki verði hjá því komist að beita almennum tímabundnum veiðibönnum. Það á að vera í stöðugt minnkandi mæli eftir því sem skipastóllinn leitar jafnvægis við veiðiþol fiskstofnanna. Það er mælikvarði á góða fiskveiðistjórn að skipin þurfi ekki að vera bundin við landfestar langtímum saman og fjárfesting í þessum framleiðslutækjum megi verða sem arðbærust. Hins vegar verður að gæta hagsmuna fiskvinnslunnar eftir því sem þörf krefur með því að beita sóknarbanni

eftir veiðitímabilum til að stuðla að sem jafnastri hráefnisöflun og vinnslu fyrirtækjanna. Slíkt stjórnunarkerfi hefur stoð í gildandi lögum, en er óháð kvótakerfinu sem svarar ekki þessum þörfum. Þá er aldrei of mikil áhersla lögð á þann þátt fiskveiðistjórnunar sem varðar beinar ráðstafanir til verndar og friðunar hrygningar- og uppeldisstöðva með svæðisbundnum og tímabundnum veiðibönnum.
    Frv. það sem við höfum nú til meðferðar boðar afnám kvótakerfisins. Þetta gildir afdráttarlaust um botnfisktegundir. Hins vegar er gert ráð fyrir heimild til að ákveða að enginn megi stunda veiðar á öðrum tegundum en botnfiski svo sem rækju, humri, skelfiski, síld og loðnu nema að fengnum sérstökum leyfum. Fer þá um þessar veiðar eftir sömu reglum og eru í gildandi lögum. Gerð er þó sú breyting að ráðherra geti ekki einungis ákveðið skiptingu á hámarksafla milli skipa, eins og verið hefur, heldur og milli vinnslustöðva. Þá er að finna nýmæli sem eiga að stuðla að sem bestri hagnýtingu þeirra skipa sem stunda þessar sérveiðar. Aftur á móti er skipum sem leyfi hafa til þessara veiða óheimil botnfiskveiði meðan ekki má auka sóknargetuna nema sérstakt veiðileyfi ráðherra komi til. Þó má aldrei veita slíkt leyfi nema takmarkað sé við aflahámark á hvert skip og fara skal eftir ástandi fiskistofna og nýtingartíma skipsins við hina leyfðu sérveiði.
    Herra forseti. Því er ósjaldan haldið fram eða látið að því liggja að þeir sem andvígir eru kvótakerfinu vilji enga stjórn fiskveiða. Slík öfugmæli eru ekki svara verð. Það er enginn ágreiningur um að stjórn fiskveiða sé þörf. Spurningin er hvaða skipan skuli höfð á þeirri stjórn. Ágreiningur er um það.
    Frv. það sem ég nú mæli fyrir felur í sér skipan sem vegur að rótum vandans. Það stuðlar að minnkun skipastólsins og að sóknargeta verði ekki umfram veiðiþol fiskistofnanna. Til að flýta fyrir þessari þróun er gert ráð fyrir úreldingarsjóði fiskiskipa. Til öryggis eru settar reglur um endurnýjun fiskiskipastólsins ef sóknargetan er of mikil. Þetta eru nýmæli frumvarpsins sem ætlað er að leysa kvótakerfið af hólmi.
    Svo mikilvæg sem þessi nýmæli eru verður að hafa í huga hverju er haldið af því sem fyrir er. Þetta frv. gerir engar breytingar á reglum núgildandi laga um aflatakmörk á einstakar fisktegundir. Sjútvrh. skal að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar ákveða fyrir 15. nóv. ár hvert með reglugerð þann afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum við Ísland á komandi ári. Ráðherra er og heimilt að ákveða í reglugerð þann afla sem veiða má úr öðrum stofnum sjávardýra við Ísland á ákveðnu tímabili eða vertíð. Allt eru þetta sömu ákvæði í frv. og er að finna í gildandi lögum. Þá skal lögð áhersla á að frv. gerir ráð fyrir að stjórn fiskveiða hafi með að gera gerð skipa, útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla. Hér er um að ræða hinar víðtækustu heimildir við stjórn fiskveiða. Slík stjórn er ekki háð kvótakerfinu að neinu leyti, enda til komin áður en það kerfi var innleitt.

    Þegar kvótakerfinu hefur verið aflétt reynir meira á þessar almennu reglur um stjórn fiskveiða. Um þetta allt eru sömu ákvæði í frv. og er að finna í gildandi lögum.
    Sama er að segja um önnur ákvæði frv. og einstakar greinar þess sem ekki varða afnám kvótakerfisins. Þar eru ekki neinar breytingar frá gildandi lögum. Öllu er haldið sem byggt hefur verið upp nema kvótakerfinu er aflétt.
    Ég skal ekki fara að fjölyrða um reynsluna af kvótakerfinu. Þar er af mörgu að taka. Ég hef þegar gert grein fyrir hvernig sóknargeta fiskiskipastólsins
hefur aukist. Ég hef sýnt fram á að ekki hafa skilað árangri þær miklu takmarkanir á hagnýtingu skipastólsins sem ætlað var að tryggja framkvæmd fiskveiðistefnu til verndar fiskstofnunum. Þetta er aðalatriði. Grundvallargalli kvótakerfisins er að aflatakmörk eru sett á hvert einstakt skip. Það er ekki hægt að bæta þetta kerfi. Meiri miðstýring væri að fara úr öskunni í eldinn. Stjórnvöld standa ráðlaus gegn vandanum meðan þau ekki afnema kvótakerfið því að það er í sjálfu sér vandamálið.
    Ég hef verið spurður að því hvort útgerðarmenn séu fylgjandi þessu frv. Ég get ekki svarað fyrir þá. En útgerðarmenn sem ég hef rætt við um málið eru því jákvæðir. Ég vil mega vona að útgerðarmenn, og raunar ekki síður sjómenn, taki frv. vel. Hér er á ferðinni mikið hagsmunamál fyrir sjávarútveginn. Með kvótakerfinu er snúist við of mikilli sóknargetu fiskiskipastólsins með því að takmarka veiði hvers skips. Með frv. er í staðinn frekar farin sú leið að takmarka stærð fiskiskipastólsins og stefna að því að fjárfesting þjóðarinnar í fiskiskipum nýtist sem best með því að takmarka ekki notin af skipunum. Þetta bætir rekstrargrundvöll útgerðarinnar og hag sjómanna. Þetta á að geta stuðlað að lægra hráefnisverði hjá fiskvinnslunni og bættum hag vinnslufyrirtækjanna. Þetta bætir stöðu sjávarútvegsins í heild, undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar. Þetta mál varðar hagsmuni þjóðarinnar í heild. Það er mál allra landsmanna.
    Það líður nú senn að þinglausnum. Það er þess vegna ekki gert ráð fyrir afgreiðslu frv. á þessu þingi. Frv. er nú lagt fram til sýnis, til að mæla fyrir því og koma því til nefndar. Það er innlegg í umræðuna um fiskveiðistefnuna. Það er annar valkostur en kvótakerfið.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu vil ég leyfa mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. sjútvn.