Almannatryggingar
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Hér mun vera fjallað um stjfrv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar. Við sjálfstæðismennirnir í heilbr.- og trn. lögðum á það mikla áherslu, sem við gerðum grein fyrir á síðasta fundi, að það væri nauðsynlegt að fá umsögn a.m.k. Læknafélags Íslands um þetta frv. og helst Öryrkjabandalagsins og þeirra aðila sem venjulega fjalla um slík frv. áður en við afgreiddum það frá okkur. Rökin fyrir því voru þau að við erum hér að fara inn á alveg nýja braut sem er sú að fela ólæknislærðum aðila að breyta matsniðurstöðum lækna. Þetta þykir okkur miklu skipta að verði gert og ég taldi mig hafa ástæðu til þess að búast við því að formaður heilbr.- og trn., hv. 13. þm. Reykv., mundi boða til fundar í þessu skyni og biðja t.d. formann Læknafélags Íslands að ræða við nefndina. Það hefur ekki verið gert og þess vegna bið ég um að umræðunni verði frestað til þess að ráðrúm megi gefast til þess arna. Ég leyfi mér að vona að formaður nefndarinnar sjái til þess að þetta verði unnt án þess að málinu verði þar með stefnt í neinn þann voða sem menn annars mundu óttast. Meginmálið er að málið sé almennilega unnið.