Orlof
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. félmn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um frv. um orlof sem flutt var af hv. þm. Austurl. Birni Grétari Sveinssyni. Nefndin fékk á sinn fund Magnús Geirsson og Þráin Hallgrímsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarin V. Þórarinsson og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Birgi Guðjónsson, Einar Sigurjónsson og Gunnar Björnsson frá fjmrn. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir frá Verkamannasambandinu, Verkamannafélaginu Hlíf, Verkalýðsfélaginu Boðanum, Verkalýðsfélaginu Einingu, Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Jafnframt barst nefndinni undirskriftalisti frá starfsfólki Eimskipafélags Íslands í Hafnarfirði.
    Lítil reynsla er komin á framkvæmd núgildandi laga um þetta efni og telur nefndin að í málinu séu margir óvissuþættir er þurfi frekari athugunar við. Nefndin leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.