Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hér fyrr í vetur þegar svarað var fsp. í Sþ. hefur af lögfræðilegum ástæðum leikið nokkur vafi á því hvort starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands gætu verið félagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Til þess að taka af allan vafa í þessum efnum var ákveðið að flytja það frv. sem hér er til 1. umr. og felur í sér þá breytingu að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru teknir inn í sjóðinn með þeim hætti sem frá er greint í frv.
    Það var einnig ákveðið að nota tækifærið og gera minni háttar breytingar á lögunum um sjóðinn. Mér hefur verið tjáð að þessar breytingar séu allar þess eðlis að um þær sé ekki ágreiningur í stjórn sjóðsins heldur sé hér um lagatæknilegar snyrtingar að ræða og einnig þær sem snúa að því að færa lögin í stíl við breytta framkvæmd og breyttar aðstæður, m.a. breytt nafn á samtökum háskólamanna sem aðild eiga að sjóðnum. Hins vegar voru ekki tekin inn í þetta frv. fjölmörg önnur atriði sem rædd hafa verið og ágreiningur hefur verið um. Ég vona að þetta frv. geti fengið jafngreiða afgreiðslu hér og það fékk í hv. Ed.