Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ræða hæstv. utanrrh. lýsir nú mætavel þeim ruglandi sem einkennir störf og stefnu Alþfl. Það er rétt að rifja upp í nokkrum orðum að gefnu því tilefni sem hæstv. utanrrh. hefur hér gefið hvernig tillögur bar að á sl. hausti um sérstakt nýtt skattþrep. Það er líka rétt að rifja upp að hæstv. núv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., innleiddi fyrstur manna tvö skattþrep í söluskatt hér á landi. Í dag eru tvö skattþrep í söluskatti, lægra skattþrep á margs konar þjónustustörfum fyrir tillögu frá núv. hæstv. utanrrh. og formanni Alþfl. Hann er höfundur að tveimur skattþrepum í söluskatti.
    Það var lögð fram tillaga af sjálfstæðismönnum í fyrrv. ríkisstjórn um lægra söluskattsstig á matvörum eins og er á margs konar þjónustu fyrir forgöngu núv. utanrrh. og formanns Alþfl. Það voru lagðar fram tillögur um hækkun á tekjuskatti sem jöfnuðu að öllu leyti upp tekjumissi ríkissjóðs af þessum sökum. Þar lágu til grundvallar útreikningar Þjóðhagsstofnunar. Og það er haldlaust fyrir hæstv. utanrrh. að ætla að fara að vitna hér í útreikninga fjmrn. á þessum tíma gegn útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Þar talar samanburðurinn skýru máli. Hvað varð um allar áætlanir fjmrn. á síðasta ári og hvernig stóðust þær samanburð við útreikninga Þjóðhagsstofnunar? Reynslan segir: Það var betra að treysta útreikningum Þjóðhagsstofnunar en fjmrn. Niðurstaðan er sem sagt þessi: Það voru lagðar til breytingar sem ekki hefðu raskað afkomu ríkissjóðs. En nú upplýsir formaður Alþfl. að á þessum tíma hafi legið fyrir að halli ríkissjóðs yrði 2 milljarðar á síðasta ári. Þá hafði hann sem fjmrh. einungis gert þáv. ríkisstjórn grein fyrir um 1 milljarðs halla. Með öðrum orðum: hann er að staðfesta það hér að hann hafi á þeim tíma gefið þáv. ríkisstjórn rangar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs. Hallinn hafi þá verið fyrirsjáanlegur tvöfalt meiri en hann hafði gert ríkisstjórninni grein fyrir. Þetta eru þær staðreyndir sem fram koma í kjölfar þessarar ræðu sem hæstv. utanrrh. hefur hér flutt og þarf ekki frekar vitnanna við.
    Auðvitað verður ekkert undan því vikist að koma á öðru skattþrepi og lægra skattþrepi á matvörum þegar virðisaukaskattur verður tekinn upp í síðasta lagi. Hefði farið betur á því að þetta hefði verið gert sl. haust. Það hefði verið eðlilegur þáttur í heildstæðum ráðstöfunum til að rétta við hallarekstur útflutningsgreinanna og spyrna gegn verðbólguöldu sem hefði fylgt í kjölfar þessa.
    Ég ætla svo, herra forseti, með örfáum orðum að víkja að svari hæstv. forsrh., einkanlega að því er varðar rekstrarstöðu sjávarútvegsins í landinu. Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð kom í ljós að ráðstafanir sem hún gerði dugðu engan veginn, voru biðleikur eins og stjórnarþingmennirnir kölluðu það. Og þegar hæstv. forsrh. mætti á neyðarfundi fiskframleiðenda nokkrum vikum eftir að ríkisstjórnin var mynduð tilkynnti hann að boða ætti til langs ríkisstjórnarfundar til að ákveða aðgerðir í þágu útflutningsframleiðslunnar. Ekkert varð úr því. Síðan

var boðað að nýjar ráðstafanir ætti að gera og tilkynna í byrjun febrúar. Ekkert varð úr þeim ráðstöfunum. Og nú hafa menn á undanförnum vikum verið að bíða eftir lokum kjarasamninga í þeirri trú að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að gera ráðstafanir til að treysta rekstrargrundvöll útflutningsframleiðslunnar. Niðurstaðan er sú að engar ákvarðanir eru teknar af hæstv. ríkisstjórn þar að lútandi. Þjóðhagsstofnun hefur nýlega gert spá um það að hallinn á rekstri sjávarútvegsins verði tvöfalt meiri næsta haust en hann var í fyrrahaust eða um 10% og er þá ekki tekið tillit til vaxandi verðbólgu umfram þær spár sem Þjóðhagsstofnun hefur byggt á fram til þessa. Þetta eru þær staðreyndir sem við blasa. Og hæstv. forsrh. kemur hér upp í kjölfar þessara kjarasamninga og tilkynnir að engar ákvarðanir hafi verið teknar af hæstv. ríkisstjórn til að mæta þessum vanda, það eigi að bíða áfram. Að vísu séu vonirnar um hækkun fiskverðs á Bandaríkjamarkaði brostnar og líkur á að vonirnar um hækkun á fiskverði í Evrópu séu líka að bresta, en samt eigi að bíða og halda áfram að ræða þetta og sennilega safna meiri upplýsingum.
    Ég inni eftir því: Er það rétt skilið að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að gera Alþingi frekari grein fyrir ráðstöfunum til að rétta við stöðu útflutningsframleiðslunnar en hæstv. forsrh. hefur gert hér í dag? Og er hæstv. sjútvrh. sáttur við að Alþingi fái ekki frekari greinargerð áður en það verður sent heim um ráðstafanir til að rétta við rekstrarstöðu sjávarútvegsins? Er það réttur skilningur að hæstv. ríkisstjórn hafi ekkert frekar fram að færa í þessu efni en það sem hæstv. forsrh. hafði að segja fyrr á þessum fundi? Það verður fróðlegt að fá svör við því hvort þetta er allt og sumt og það eigi bara að bíða og sjá.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur gefið launafólki býsna sterkar yfirlýsingar um að ekki verði vegið að forsendum nýgerðra kjarasamninga sem hæstv. ríkisstjórn hafði frumkvæði um í samningum við opinbera starfsmenn og forustumenn opinberra starfsmanna hafa áréttað að þeir líti á það sem skyldu ríkisstjórnarinnar að brjóta ekki þessar forsendur. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að standa við þetta? Ætlar hún að sitja áfram án þess að gera neitt til að rétta við stöðu útflutningsframleiðslunnar? Hæstv. forsrh. sagði:
Gengið verður eitthvað að síga vegna vaxandi verðbólgu. Auðvitað þarf gengið eitthvað að síga vegna vaxandi verðbólgu, en það er fyrir verulegur halli og það er spáð tvöfalt meiri halla næsta haust en hann var í fyrra án þess að reiknað sé með þeirri vaxandi verðbólgu sem forsrh. var að tala um. Á í engu að mæta því? Á í engu að svara því frekar en hæstv. forsrh. gerði í ræðu sinni áðan?
    Út af dagskrá þingsins er ástæða til að spyrja að því enn einu sinni: Á ekki að gera frekari grein fyrir ráðstöfunum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart útflutningsframleiðslunni en gerð hefur verið? Og er hæstv. sjútvrh. sáttur við þá niðurstöðu að þingið fái ekki frekari upplýsingar, þar af leiðandi ekki íslenska

þjóðin og þeir sem við sjávarútveginn starfa?
    Og loks þetta, herra forseti: Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að hann hefði lengi talið að framlengja þyrfti þinghaldið lengur en til 6. maí. Sl. föstudag ítrekaði forseti Sþ. að forsetum þingsins hefði ekki verið gerð grein fyrir neinum slíkum áformum frá hæstv. ríkisstjórn. Hvenær ætlar hæstv. ríkisstjórn að taka um þetta ákvörðun? Hvenær stefnir hún að þinglokum? Hver eru þau mál sem hún telur að eigi að hafa forgang eða kemur hún sér ekki saman um það hvaða mál hér eigi að hafa forgang á þeim tíma sem til umráða er? Eða hversu lengi á þingið að starfa? Er útilokað að hæstv. ríkisstjórn geti komist að einhverri niðurstöðu um þetta efni? Það er óskað eftir skýrum svörum þar um.