Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að vera langt mál mitt núna, en gamalt viðkvæði segir, sem menn nota gjarnan þegar lokið er samningum á vinnumarkaðnum, að út af fyrir sig sé ánægjulegt að samningar hafi tekist, en ... Þetta viðkvæði á nú við núna. Fleira ætla ég ekki að segja um það þar sem það rúmast ekki innan þess ramma sem þessi umræða er í.
    Þær spurningar sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram voru bæði eðlilegar og nauðsynlegar og nauðsynlegt að fá svör við þeim og ég þakka honum fyrir þær og hæstv. ráðherra fyrir svörin. En það var ein spurning sem ég saknaði úr máli hv. 1. þm. Reykv. sem ég heyrði að vísu ekki frá upphafi til enda, en ég heyrði heldur ekki þetta atriði koma fram í máli hæstv. forsrh. og því tel ég nauðsynlegt að bera þá spurningu fram hér og nú um leið og ég reyndar tek eindregið undir spurningar hv. síðasta ræðumanns varðandi þinghaldið. En spurning mín er þessi: Hver er kostnaðarauki eða tekjutap ríkissjóðs við framkvæmd þeirra loforða sem ríkisstjórnin hefur gefið í tengslum við lausn þessarar kjaradeilu?
    Þau frumvörp til breytinga á skattalögunum sem afgreidd voru hér í miklu hasti fyrir jólin lutu að því að auka tekjur ríkissjóðs til að mæta hallarekstrinum sem menn lögðu ofuráherslu á að slétta út og helst að hafa afgang á fjárlögum. Mér sýnist að það sé stefnt í hallarekstur með þessu eða hugsanlega er þá ætlunin að mæta þessu með tekjuaukningu á öðrum sviðum. En ég tel nauðsynlegt að fá svar við þessari spurningu.