Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég skal svara þessu. Aukin útgjöld ríkissjóðs eru talin verða á þessu ári um það bil 800 millj. til 1 milljarður og langstærsti liðurinn eru niðurgreiðslur, í krónutölu þær sömu. Eins og kemur fram í bréfi mínu til aðila vinnumarkaðarins er þar um 500--600 millj. að ræða. Tekjutap vegna niðurfellingar vörugjalds frá 1. september er 350 millj. Tekjutap vegna breytinga á lántökuskatti er áætlað 100 millj., vegna niðurfellingar lántökuskatts frá 1. júlí 100 millj. og vegna lækkunar á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 100 millj. Hins vegar eru tekjur á móti af jöfnunargjaldi áætlaðar um 250 millj. Þetta eru þær áætlanir sem við gerðum þegar þetta var í umræðu, en eru nú til nánari athugunar hjá fjmrn. Hins vegar get ég upplýst þau gleðilegu tíðindi að innheimta á söluskatti hefur verið töluvert mikið betri en fjárlög gera ráð fyrir og ef meta má af þremur fyrstu mánuðum þessa árs bendir ýmislegt til þess að sú innheimta muni fyllilega vega upp á móti þessum auknu útgjöldum.