Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal vera afar stuttorður. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og jafnframt virðulegum forseta fyrir að greiða fyrir þannig að við getum klárað þetta mál.
    Það kemur í ljós að það eru allmörg þingmál sem eiga eftir að koma til kasta þessa þings. Það eru greiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, frystideildina, það er lántökuskattur, vörugjald, jöfnunargjald, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, frv. um atvinnuleysisbætur, heimild fyrir ríkisstjórnina til að fá fjármuni í auknar niðurgreiðslur og loks: ef standa á við það sem kemur fram í húsnæðismálum þarf án efa aukna fjármuni þar því að varla er það stórmannlegt að hefja byggingar á 200 íbúðum og eiga aðeins 500 þús. kr. í hverja íbúð. Það eru 200 nýjar íbúðir sem hefja á framkvæmdir við og það er upplýst að það séu til 100 millj. og þótt ég sé ekki verkfræðingur telst mér til að þetta séu um 500 þús. á íbúð þegar reynt er að deila.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég held að þessar umræður hafi verið gagnlegar og þó kannski einkum fyrir það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn komið sér saman um hver séu forgangsmál þessa þings. Það er eðlilegt kannski og í stíl við störf þessarar hæstv. stjórnar. Jafnframt hefur það verið upplýst loks nú að sú vika sem nú er hafin dugi ekki til að ljúka þinginu. Vonandi fréttist þá af því á næstu dögum, um það leyti sem þau frumvörp koma fram sem hér hafa verið boðuð, hvenær og hvort hæstv. ríkisstjórn hyggst hafa þinglausnir á þessu vori.