Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðauka við lög nr. 44 frá 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Með frv. þessu er lagt til að stofnuð verði sérstök þróunardeild við Fiskveiðasjóð Íslands er hafi það hlutverk að veita lán til rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum í sjávarútvegi. Jafnframt er gert ráð fyrir að Fiskimálasjóður verði lagður niður og hin nýja þróunardeild yfirtaki eignir og skuldir sjóðsins. Frá stofnun Fiskimálasjóðs árið 1935 hafa margvíslegar breytingar orðið á starfsemi sjóðsins. Engu að síður má segja að meginhlutverk hans hafi ætíð verið óbreytt, þ.e. að styðja nýjungar í sjávarútvegi, veita styrki til veiða með nýjum veiðarfærum, tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða. Af eldri lögum um Fiskimálasjóð má sjá að hann hefur aldrei gegnt hlutverki sem almennur stofnlánasjóður fyrir sjávarútveginn. Hefur hlutverk hans einkum verið að veita viðbótarlán vegna nýjunga eftir að þær stofnanir sem hafa það hlutverk að veita stofnlán hafa lánað til fyrirtækja eftir almennum reglum eins og þeim þykir tryggt hverju sinni.
    Sjóðurinn hefur einnig veitt lán eða styrki til stuðnings nýjungum sem ekki hafa verið fullreyndar. Hefur hann því oft tekið áhættu sem ekki er talið eðlilegt að bankastofnanir eða fjárfestingarlánasjóðir reknir á svipuðum grundvelli taki. Hefur Fiskimálasjóður frá upphafi styrkt margvísleg framfara- og hagsmunamál í sjávarútvegi og veitt lán með hóflegum vöxtum til tilrauna sem ýmist hafa gefist vel eða ekki reynst grundvöllur fyrir eins og gengur og gerist. Sjóðnum hefur því reynst erfitt að gegna hlutverki sínu án annarra tekna en af vaxtatöku. Þá rýrði mjög Fiskimálasjóð, eins og aðra sjóði á sínum tíma, sú verðbólga sem um langt árabil geisaði hér á landi og er reyndar ekki útdauð enn. Eiginfjárstaða sjóðsins hefur af þessum sökum lengst af verið tiltölulega veik. Tekjur sjóðsins voru fyrst og fremst hlutdeild í útflutningsgjaldi af sjávarafurðum.
    Á árunum 1985--1986 vann nefnd á vegum sjútvrn. að gagngerðri endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Samkvæmt tillögum nefndarinnar var það flókna sjóðakerfi sem sprottið hafði upp afnumið og útflutningsgjald af sjávarafurðum fellt niður. Við þetta hvarf aðaltekjustofn Fiskimálasjóðs. Í forsendum sjóðsnefndar var ráð fyrir því gert að sjóðurinn mundi sameinast Fiskveiðasjóði Íslands. Með frv. þessu er því lagt til að þessi skipan verði lögfest. Enda þótt Fiskimálasjóður verði lagður niður verði frv. að lögum er ljóst að mikil þörf er fyrir að þeim umbótum, sem sjóðnum var ætlað að inna af hendi, verði sinnt áfram. Til marks um þörfina má nefna þann fjölda umsókna um styrki til áhugaverðra nýjunga og sérhæfðra tilrauna er sjútvrn. berst stöðugt og alltaf er ýmislegt í gangi á þessu sviði.
    Með frv. er lagt til að stofnuð verði sérstök þróunardeild við Fiskveiðasjóð í þeim tilgangi að veita lán eða styrki til rannsókna og nýjunga sem eflt geta stöðu íslensks sjávarútvegs. Styrkveitingar úr deildinni

verða þá háðar því að deildin fái sérstakar tekjur í þessu skyni. Með rannsóknum er einnig átt við markaðsrannsóknir er leitt geta til þess að íslenskar sjávarafurðir kæmu fram á nýjum mörkuðum erlendis. Er gert ráð fyrir því að deildin lúti sömu yfirstjórn og Fiskveiðasjóður, en stjórn hans er skipuð af sjútvrh. m.a. samkvæmt tilnefningu helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fjármálastofnana sem starfa á vettvangi sjávarútvegsins. Fulltrúar atvinnugreinarinnar sjálfrar koma því til með að fjalla um einstakar lánveitingar eða styrki. Um deildina munu gilda ákvæði laga um Fiskveiðasjóð Íslands að öðru leyti en um getur í 2. gr. Frv. gerir ráð fyrir því að deildin veiti lán gegn tryggingum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi og er stjórnin í þeim efnum óbundin af 11. og 12. gr. laga um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Umræddar greinar gera ráð fyrir því að Fiskveiðasjóður sem stofnlánasjóður veiti einungis lán til fiskiskipa með fyrsta veðrétti eða gegn veði sem er innan við 60% af matsverði eigna. Nauðsynlegt þykir að stjórnin sé óbundin af þessum reglum til að deildin geti sinnt því hlutverki sem henni er ætlað. Hins vegar er lagt til að sjóðsstjórn meti tryggingar fyrir láni hverju sinni. Eðlilegt þykir að gera ráð fyrir þessari skipan mála enda er stjórn Fiskveiðasjóðs fyllilega treystandi til að marka sér fastmótaðar reglur í þessum efnum.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um lán- og styrkveitingar. Reglur um styrkveitingar munu ekki verða settar fyrr en ljóst verður hvaða tekjur eða framlag deildin fær til styrkveitinga. Verður haft samráð við sjóðsstjórnina um reglur til slíkra styrkja og aðra framkvæmd þessa máls.
    4. gr. kveður á um yfirtöku Fiskveiðasjóðs á eignum og skuldum Fiskimálasjóðs. Er miðað við stöðu eigna og skulda 1. júlí 1989. Nauðsyn þykir að ákveðin dagsetning sé fest í þessu skyni og endanlegt uppgjör fari fram eins fljótt og mögulegt er. Efnahagsreikningur, sem nú liggur fyrir um stöðu Fiskimálasjóðs í árslok 1988, sýnir að eign sjóðsins er um 14 millj. kr. Þessi staða gæti þó verið lakari því að í reynd er hluti af útistandandi kröfum
sjóðsins vegna nýjunga sem enn hafa ekki sannað gildi sitt og eru því áhættulán.
    Þess skal að lokum getið að frv. var á undirbúningsstigi kynnt stjórn og forstjórum Fiskveiðasjóðs og taldi stjórnin og forstjórar Fiskveiðasjóðs eðlilegt að slík breyting væri gerð. Það skal jafnframt tekið fram að stjórn Fiskimálasjóðs fjallaði um málið á fundi sínum 21. apríl sl. og afgreiddi þá svohljóðandi samþykkt:
    ,,Stjórn Fiskimálasjóðs lýsir ánægju sinni yfir því að með frv. þessu, ef samþykkt verður, hefjist aftur stuðningur við rannsókna- og þróunarverkefni í sjávarútvegi. Jafnframt beinir stjórn sjóðsins eftirfarandi til sjútvnr. varðandi efni frv.:
    Þar sem rætt er um rannsóknir í 1. gr. frv. verði látið koma fram að orðið rannsóknir eigi einnig við um markaðsrannsóknir.
    Umsóknir um lán og styrki úr þróunardeildinni fái

faglegt mat um gagnsemi verkefnisins og líklegan árangur áður en þær eru afgreiddar.
    Markaðir verði ákveðnir tekjustofnar fyrir deildina.``
    Ég tel að þetta frv. sé eðlilegt framhald á þeirri breytingu sem orðið hefur á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Það er vissulega full þörf fyrir að fé sé veitt til ýmissa mála á vettvangi atvinnugreinarinnar. Mér er það fyllilega ljóst að með frv. er það ekki tryggt sem skyldi því enn er ekki fyrir því séð hvaða tekjur Fiskveiðasjóður gæti fengið í þessu skyni. Þess má geta að Iðnlánasjóður hefur t.d. fengið ríkisframlag sem veitt hefur verið til svipaðra verkefna og væri ekki óeðlilegt að fullt samræmi væri milli reglna að því er Iðnlánasjóð varðar og Fiskveiðasjóð og það má segja að Iðnlánasjóður hafi svipaðar heimildir eins og fram kemur í frv. þessu.
    Ég vildi að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.