Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að leggja endanlega niður Fiskimálasjóð, en grundvellinum var kippt undan þeim sjóði við endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins vorið 1986. Það vill nú svo til að ég hef haft allnáin kynni af Fiskimálasjóði og störfum hans í mörg ár og var um tíma í stjórn hans og get því dæmt um það að hann lagði fjármuni til nauðsynlegra rannsókna, lengi vel til hafrannsókna, rannsókna á fiskigöngum og fiskistofnun. Höfuðtilgangur sjóðsins og starf var að styrkja tilraunir til veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, tilraunir við verkun og vinnslu sjávarafurða, til markaðsleitar fyrir sjávarafurðir og annarra rannsókna og nýjunga í þágu sjávarútvegsins.
    Ég hefði vel getað fellt mig við og talið æskilegast að Fiskimálasjóður hefði starfað áfram eingöngu að þessu verkefni en niður hefðu verið felldar heimildir til að lána til fiskvinnslufyrirtækja vegna þess að þessi sjóður hafði í raun og veru aldrei bolmagn til þess og þau lán skiptu fyrirtækin tiltölulega litlu máli. Þar af leiðandi hefði hann átt að geta gert meira í því að sinna þessu hlutverki sem ég hef þegar minnt á.
    Annað mál er það hvað við erum að láta af hendi og hvað kemur í staðinn. Það er eðlilega það sem skiptir mestu máli. Fyrir þessu frv. hefur þegar verið mælt og þar er gert ráð fyrir því að hjá Fiskveiðasjóði skuli vera sérstök þróunardeild sem hefur það hlutverk að veita lán til rannsókna- og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Heimild er fyrir deildina að veita styrki í sama tilgangi enda verði henni séð fyrir sérstökum tekjum í því skyni. Síðan er ekkert meira minnst á þær tekjur. Þar með er engin fullvissa fyrir því að þessi deild hafi einhverjar tekjur til að sinna þessu mikilvæga verkefni og þar af leiðandi engin vissa fyrir því hversu miklar þessar tekjur verða. Því tel ég að frá því að Fiskimálasjóður starfaði með eðlilegum hætti sé með þessu stigið alvarlegt skref aftur á bak hvað þessi mál varðar, þ.e. markaðskönnun, rannsóknir á veiðum með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum og tilraunir við verkun og vinnslu sjávarafurða. Inn í þetta vantar algjörlega alla tryggingu fyrir því að þessi væntanlega deild, sem hér er gert ráð fyrir, verði eitthvað í raunveruleikanum.
    Ég vil einnig benda á að breytingin sem var gerð á stjórn Fiskveiðasjóðs, sem ég á kannski öðrum fremur sök á, hefur verið mjög gagnrýnd, sérstaklega á þann veg að hagsmunasamtökin og bankarnir ráði algjörlega Fiskveiðasjóði. Á sínum tíma taldi ég nauðsynlegt að taka stjórn sjóðsins að vissu leyti úr höndum yfirstjórnar þessara þriggja banka. Fyrst var stjórn Fiskveiðasjóðs algjörlega undir stjórn bankastjórnar Útvegsbankans. Því var síðar breytt á þann veg að Fiskveiðasjóði var stjórnað af þremur bönkum, Seðlabanka, Landsbanka og Útvegsbanka. Ég taldi á sínum tíma nauðsynlegt að gera þær breytingar að hagsmunasamtök sjávarútvegsins kæmust einnig þarna inn í stjórnina. Það endaði á þann veg að bankarnir, þessir þrír bankar sem ég nefndi, höfðu

sinn fulltrúann hver, hagsmunaaðilar, útvegsmenn og fiskverkendur, fengu þar tvo fulltrúa og samtök sjómanna, bæði undirmanna og yfirmanna, höfðu einn fulltrúa og þeir skiptust á sitt hvort tímabilið með sinn fulltrúa. Sjútvrh. skipaði svo án tilnefningar formann stjórnar Fiskveiðasjóðs.
    Fimm manna stjórn Fiskimálasjóðs var hins vegar kosin af Alþingi og hún hefur vegið og metið hvað skynsamlegt er að styrkja og gera á liðnum árum í þessum efnum en er ekki háð bankakerfi og lánasjónarmiðum þó að frv. geri ráð fyrir að hægt sé að lána með öðrum og léttari hætti en Fiskveiðasjóður verður að gera samkvæmt lögum um hann.
    Gallinn á frv. er sá að hér er engin skylda lögð á að leggja fram fjármuni til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem Fiskimálasjóður hefur sinnt á meðan hann hafði tekjur til. Ég tel því að með frv. sé ekki verið að ganga inn á nýja braut þar sem þessum málum sé komið betur fyrir en áður. Því lýsi ég yfir sérstakri óánægju minni með frv. eins og það er úr garði gert. Lögin um Fiskimálasjóð eru góð og á þeim hefði verið sjálfsagt að gera þær breytingar sem ég nefndi hér áðan varðandi þessi lítilfjörlegu lán til fiskverkunarstöðva sem var sjálfsagt að hverfa frá, ég get verið sammála í því. En hin atriðin, styrkir til tilrauna til veiða með nýjum aðferðum og veiðarfærum, tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða, markaðsleitar fyrir sjávarafurðir, allt þetta tel ég að hefði verið miklu betur komið hjá Fiskimálasjóði eða hjá sjálfstæðri lítilli stofnun sem hefði verið stjórnað af mönnum kosnum af Alþingi.
    Í Fiskveiðasjóði verður þessi starfsemi vafalaust algjört aukaatriði, enda er hún það lítil miðað við heildarstarfsemi sjóðsins, svo að ég skil ekki í því að menn skuli lýsa yfir ánægju sinni með þessar breytingar, og það þeir menn sem hafa verið í forsvari fyrir Fiskimálasjóð, nema ánægjan felist í því að þeir sjá að það var búið að gelda Fiskimálasjóð og þeir telji þá sjálfsagt að kasta rekum yfir líkið en láta það ekki vera lengur ofan jarðar en það hefur núna verið. Ég hygg að ánægjan sé aðallega af þeim toga spunnin. Ef það er hins vegar ætlun hæstv. sjútvrh. að koma þessu máli fram held ég að það
megi nú alveg öruggt telja að athugasemdir komi fram í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar á þann veg að Fiskveiðasjóði verði tryggðar tekjur til þess að standa undir þeirri starfsemi sem Fiskimálasjóður hefur annast fram undir það síðasta.