Búfjárræktarlög
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara að ræða efnislega um þetta frv. heldur um það sem mætti kalla formsatriði. Fyrir þessari hv. deild liggur frv. til laga um búfjárrækt, 465. mál þingsins. Þetta mál hefur legið núna fyrir landbn. Ed. Við höfum haldið langa fundi um þetta mál, síðast í morgun. Mér hefur virst að það lægi í loftinu af hálfu ríkisstjórnarinnar eða forsvarsmanna þessa frv. að gert væri ráð fyrir að frv. yrði afgreitt á þessu þingi og þá afnumin núverandi búfjárræktarlög.
    Nú er hér hins vegar málið sem er til umræðu, 373. mál og það er frv. til laga um breytingu á búfjárræktarlögum, nr. 31 24. apríl 1973, til breytingar á þeim lögum sem hitt frv., sem ég gat um, gerir ráð fyrir að verði afnumin, falli úr gildi. Mér virðist að ekkert sé við þetta að athuga ef gengið er út frá því að frv. til laga um búfjárrækt, 465. mál, verði ekki afgreitt á þessu þingi og að núgildandi lög verði ekki felld úr gildi. Ef ætlunin er hins vegar að afgreiða sem lög frv. til laga um búfjárrækt, 465. mál, og afnema núgildandi lög um búfjárrækt þykir mér það skjóta nokkuð skökku við og ég skil ekki þau vinnubrögð að leggja til að hér verði afgreitt, á þessu þingi, frv. til laga um breytingar á búfjárræktarlögunum, 373. mál, og gerðar breytingar á lögum sem hitt frv. gerir ráð fyrir að felld séu úr gildi.
    Ég kvaddi mér hljóðs til þess að fá skýringar á þessu.