Búfjárræktarlög
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt að spurt sé og óskað skýringa á þessu atriði því að það er ugglaust rétt að nokkuð óvenjulega stendur hér á. Þetta á sér þær skýringar að orðið hefur að ráði við endurskoðun búfjárræktarlaganna í heild sinni að skipta þeim lagabálki í tvennt og setja þar annars vegar sérstök lög um búfjárræktarstarfið og allt sem lýtur að búfjárrækt og kynbótum og þeim þáttum og það er það frv. sem hv. landbn. Ed. hefur haft til umfjöllunar um skeið. Síðan er gert ráð fyrir því að það sem þá stendur eftir af núverandi og núgildandi búfjárræktarlögum, þ.e. ákvæði sem lúta að búfjárhaldi, forðagæslu, ásetningi, lausagöngumálum og öðru slíku, haldi sér, og þá er í raun tvennt til ráða, annars vegar að í gildi verði tvenn lög með þessu nafni, búfjárræktarlög, önnur sem lúti sérstaklega að búfjárræktarstarfinu og kynbótastarfinu og hin að búfjárhaldinu, eða hitt sem líka kemur til greina, að lagabálki þeim sem lýtur að búfjárhaldinu verði gefið nýtt nafn, hann t.d. skírður upp og kallaður lög um búfjárhald. Það litla frv. sem hér er á ferðinni, 373. mál, fellur inn í þennan hluta búfjárræktarlaga, þ.e. þann hluta búfjárræktarlaganna sem fjallar um búfjárhaldið, lausagöngumál og annað slíkt eins og gefur að skilja vegna efnis málsins. Hér er því um það að ræða að ekki er gert ráð fyrir að þau lagaákvæði sem þetta frv. yrði hluti af, þ.e. sem 64. gr., féllu niður heldur héldu gildi sínu, annaðhvort undir sama nafni eða að þeim hluta laganna, sem reyndar er í heildarendurskoðun og verður væntanlega lagður fyrir næsta þing, yrði þá gefið nýtt nafn. Vona ég að þetta skýri málið en ég skil vel að mönnum finnist þetta hljóma kynduglega og ekki nema eðlilegt að þetta sé skýrt en það væri ánægjulegt ef hv. landbn. Ed. vildi leggja hug að því, þegar hún hefur samtímis bæði frv. til meðferðar, hvernig leysa ætti þetta vandamál með nafngiftirnar og hvort ekki væri skynsamlegt og heppilegt af ritstjórnarlegum ástæðum í lagasafninu að þessi tvenn lög, annars vegar um búfjárræktarstarfið og hins vegar um búfjárhaldið, hefðu ekki sama nafnið heldur hvort sitt.