Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem talað hafa í umræðunni fyrir stuðning við það mál sem er hér til meðferðar. Það er greinilegt að málið nýtur mikils stuðnings. Ég fagna því að samstaða skuli geta tekist á Alþingi um jafnmikið þjóðþrifamál og hér er á ferðinni.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum að því sem fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa tekið til máls og vildi fyrst taka undir með þeim öllum þremur sem hér hafa talað að það er miður að frv. um brotamálma og vélaúrgang ýmiss konar skyldi ekki koma til meðferðar á þessu þingi, en ég heyri á undirtektum þingheims að það mál á í vændum greiða götu í gegnum þingið næsta haust þannig að sá skaði verður þá fyllilega bættur. Vonandi gefst þá tóm til að undirbúa það mál vel og hafa samband við þá sem það mál varðar. Það verður gert og hefur reyndar þegar verið hafið með því að senda það mál til umsagnar til fjölmargra aðila.
    Hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín nokkrum spurningum sem ég mun leitast við að svara. Í fyrsta lagi vil ég ítreka að skilagjaldið er ekki skattur og á það leggst ekki skattur frekar en á skilagjöld á glerflöskum sem nú eru algeng. Það er ekki hluti af söluskattsskyldri veltu t.d. Þetta eru eingöngu geymslugjöld sem eru afhent þegar umbúðum er skilað. Það sama mun gilda um þetta skilagjald og sá skilningur hefur verið staðfestur í meðförum málsins hjá hv. Ed.
    Í öðru lagi vil ég taka undir með þeim sem hér hafa talað að ég tel það ekki til bóta að takmarka gildissvið frv. við umbúðir úr þremur tilteknum efnum, málmi, gleri og plasti. Það hefði verið betra að hafa heimildina almennari, en eins og ég sagði í minni framsöguræðu sætti ég mig við þetta og lít á þetta mál og samþykkt frv. sem fyrsta skrefið af mörgum í þróun starfsemi til umhverfisverndar og endurvinnslu sem við erum greinilega öll sammála um að hefja þarf án tafar.
    Þá vildi ég svara því sem til mín var beint af hv. 1. þm. Reykv. og hv. 12. þm. Reykv. að ég tel eðlilegt að einhvers konar umhverfisgjald verði tekið af pappírsumbúðum til þess að tryggja endurheimtu þeirra ef það reynist farsæl leið. Ég er hins vegar tilbúinn til þess að skoða allar aðrar leiðir sem að því marki stefna og treysti á það að fá um það góða samstöðu í þinginu síðar.
    Ég ætla ekki að fjölyrða hér um félagsformið eða reksturinn á þessu væntanlega endurvinnslufyrirtæki. Ég hef greint frá þeim ástæðum sem liggja að baki því að þetta form var valið. Mikilvægast er að hrinda málinu af stað og búa því þannig umgjörð að hún sé varanleg og líkleg til að tryggja það að þarna verði fjárhagsleg ábyrgð í fyrirrúmi og reksturinn detti ekki niður þegar áhuginn dvínar eins og oft vill verða þegar lauslegra form er valið fyrir slíkar framkvæmdir.
    Um aðild sveitarfélaganna hef ég þegar fjallað og reyndar hafa sveitarfélögin tekið þátt í undirbúningi þessa máls og er ráð fyrir því gert, eins og fram

kemur í greinargerð, að þau verði aðilar að félaginu ef þau kjósa, og það munu þau kjósa. Þau hafa þegar leitað eftir því. Sama máli gegnir um þau málmbræðslufyrirtæki og málmendurvinnslufyrirtæki sem starfa hér í landinu. Ég nefni þrjú, Ísal, álverið í Straumsvík, Járnblendifélagið á Grundartanga og fyrirtækið Sindra hf. Öll þessi fyrirtæki hafa lýst áhuga sínum á að verða aðilar að þessu hlutafélagi og ég geri ráð fyrir því að þau verði það um leið og heimild hefur fengist til þess að stofna félagið.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða nú um það hvort stofnun umhverfisverndarráðuneytis eða umhverfisráðuneytis sé heppileg til að bæta yfirstjórn umhverfismála. Ég tel að það sé eftir atvikum frambærileg lausn sem liggur hér fyrir í stjfrv. í þinginu í fyrsta sinn sem er mjög mikilvægur áfangi í umhverfisverndarmálum. Það má lengi deila um skipulag á svona hlutum, en það er með þessa stjórn eins og aðra stjórn að ,,hún er æ best sem best fram fer, bera kann enginn á móti því``. Menn geta lengi deilt um það hver sé besta stjórnaraðferðin.
    Ég vona að það mál sem við ræðum nú hljóti nú, eftir að hafa fengið mjög rækilega meðferð og sætt breytingum eftir yfirvegaða athugun í hv. Ed., skjóta meðferð hér í hv. Nd. og verði ekki tafið, einkum af því að ég tel að það þurfi að hefja vorverk í orðsins fyllstu merkingu á grundvelli þessara laga.
    Þá kem ég að spurningum hv. 1. þm. Reykv. og 12. þm. Reykv. um skilagjaldið og hæð þess. Ég bendi á að þegar er hafin innheimta á skilagjaldi af sterku öli, 5 kr. af hverri dós. Það mun renna til þessarar starfsemi, enda mun í upphafi þurfa á því að halda til að greiða fyrir endurheimt dósa sem ekki voru greidd af nein skilagjöld. Í því liggur viss fjárhagsáhætta. Þess vegna þarf nokkurn sjóð í upphafi. M.a. vegna þess þarf nokkurt hlutafé til að hrinda þessu af stað, einnig til þess að fjármagna söfnunarherferðir í byggðumn sem óbyggðum í samstarfi við áhugamannafélög og sveitarfélög sem verður meðal fyrstu verkefna þessa félags.
    Síðan kem ég að því að gjaldið sem er tekið af sterka ölinu, 5 kr. á hverja dós, er jafnhátt því skilagjaldi sem algengast er í verslunum með glerflöskur.
Þar er skilagjald algengt 5 kr. Það setur að mínu áliti skilagjaldinu neðri mörk. Ég lít svo á, eins og kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv., að 10 krónurnar séu miðaðar við verðlag á gildistökudegi og ákvörðun félagsins um það hvar byrja skuli og tillagan sem það mun gera til iðnrn. hlýtur að miðast við þessar tvær stærðir sem ég hef nefnt. Að öðru leyti vil ég ekki hlaupa fyrir mig fram í því máli, bendi á það, sem ég hef þegar sagt, að hér er ekki um skatt að ræða, en hins vegar getur falist í því viss mismunun á milli umbúðategunda sé þetta lagt eingöngu á umbúðir úr þeim þremur efnum sem hér hafa verið nefnd.
    Ég vona að með þessu hafi ég svarað flestu af því sem fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv. og nokkru af því sem fram kom í máli hv. 12. þm. Reykv.
    Hv. 12. þm. Reykv. spurði mig enn fremur um það

fyrirkomulag sem ráð var fyrir gert í frv. um fjárframlög til Náttúruverndarráðs af þessari starfsemi þar sem gert er ráð fyrir að Náttúruverndarráð fái ákveðinn hluta af væntanlegum hagnaði af rekstri þessa félags. Ég svara því þannig að sú leið var valin af minni hálfu til þess að ekki væri gefið fordæmi fyrir því að skilagjaldið yrði notað sem undirstaða, farvegur, farartæki fyrir margs konar skattheimtu af þeim vörum sem eru í þessum umbúðum eins og uppi hafa verið um fjölmargar tillögur. Þetta er eiginlega girðing til að girða fyrir að þessi aðferð, þessi farvegur verði notaður sem tekjusstofn fyrir margvíslega starfsemi sem um hafa verið gerðar margar tillögur í þinginu. Ef það er gert er ég hræddur um að megintilgangur frv., umhverfisvernd og endurvinnsla, færi forgörðum. Þetta veit ég að þingmenn skilja, en hins vegar er jafnsjálfsagt að liðsinna Náttúruverndarráði. Ég bendi að lokum á það að talsmaður þess í undirbúningsnefnd og aðili að samningu frv. lýsti yfir því að þeir væru fullkomlega við þetta sáttir en ég tel það mjög mikilvægan áfanga í málinu.
    Að lokum vil ég svo taka undir með þeim sem hér hafa talað að ég lít á þetta sem eitt fyrsta skrefið í raunverulegum aðgerðum til umhverfisverndar og ég vona að hv. þingdeild ljúki þessu máli sem allra fyrst.