Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð umliðið síðan þetta mál var síðast til umræðu. Umræðunni var frestað. Nál. sem gefin voru út af hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar eru dags. 22. febr. Nú er komið fram í maí þannig að nokkur tími er liðinn frá því að málið var síðast hér til umræðu. Ég hygg að það hafi verið til umræðu hér um mánaðamótin febrúar/mars. Nú er 3. maí.
    Það vakti strax athygli þegar málið var tekið til umræðu að þá hafði hæstv. ríkisstjórn þegar gefið út reglugerð, reglugerð nr. 18 frá 23. jan. 1989, og í reynd breytt lánskjaravísitölunni þrátt fyrir að lesa mætti út úr athugasemdum við lagafrv. að nauðsynlegt hefði verið að samþykkja lög til að styrkja reikning á launavísitölu, en fram höfðu komið athugasemdir um það atriði m.a. frá þeim aðilum sem gera þá útreikninga.
    Minni hl. hv. fjh.- og viðskn. rökstuddi sitt nál. nokkuð ítarlega og lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekkert heyrt um það hvort hæstv. ríkisstjórn hafi rætt þessi mál ítarlega frá því að umræðunni var frestað á sínum tíma, en ég hygg þó að enn séu óleyst þau deilumál sem þá voru uppi milli annars vegar hæstv. ríkisstjórnar og hins vegar lífeyrissjóðanna vegna þess að fyrir lá lögfræðilegt álit á þeim tíma, frá 20. febr., þar sem tveir hæstaréttarlögmenn komust að þeirri niðurstöðu í fyrsta lagi að ákvæði VII. kafla svokallaðra Ólafslaga nr. 13/1979 leyfðu ekki að tekin væri upp bein viðmiðun við launabreytingar í grundvelli lánskjaravísitölu og í öðru lagi að jafnvel þótt sú niðurstaða væri röng sem þeir komust að hvað þetta varðaði og lögin heimiluðu beina viðmiðun við launabreytingar töldu þeir ekki að aðilar lánssamnings sem gerður hefði verið í gildistíð eldri lánskjaravísitölu þyrftu gegn vilja sínum að sæta breytingum á samningi til samræmis við reglugerð nr. 18/1989 nema slíkt leiði ótvírætt af texta lánssamningsins sem gerður var á sínum tíma, en það er mál sem auðvitað hefði þurft skoðunar við.
    Nú, allt í einu í dag, birtist þetta mál á dagskrá þessarar hv. deildar. Þar sem ég hef spurnir af því að hv. nefnd hafi ekki rætt þetta mál né fengið nýjustu upplýsingar um stöðu deilumáls hæstv. ríkisstjórnar og lífeyrissjóðanna né heldur er mér kunnugt um að ný lögfræðileg álit liggi fyrir finnst mér ástæða til að fara fram á það, virðulegur forseti, að umræðunni verði enn frestað og hv. fjh.- og viðskn. fái tækifæri til að líta á málið áður en það kemur hér til frekari umræðu og þá væntanlega afgreiðslu þingsins. Það er von mín að hæstv. forsrh. skilji að þetta mál þurfi frekari skoðunar við, ekki síst þegar svo langur tími er liðinn frá því að umræðunni var frestað, og vil ég fara þess á leit við hann að hann styðji þessa ósk. Ef hann hefur nýjar upplýsingar varðandi þau mál sem ég hef gert hér að umtalsefni er auðvitað æskilegt að hann greini frá þeim á þessu stigi málsins, bæði þingheimi til upplýsingar og enn fremur gæti það orðið vegarnesti fyrir hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.