Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég er annar af tveimur fulltrúum meiri hl. fjh.- og viðskn. sem undirrita álit meiri hl. með fyrirvara og ég tel mér skylt að gera grein fyrir því af hverju ég undirritaði álitið með fyrirvara. Ástæðurnar eru nokkrar, en meginástæðan er þó sú að flestir af þeim aðilum sem komu til fundar við nefndina höfðu uppi talsverðar efasemdir um launavísitöluna og þó einkum og sér í lagi útreikning launavísitölunnar.
    Vegna orða hæstv. forsrh. áðan er rétt að það komi fram að hagstofustjóri mælti í sjálfu sér ekki gegn launavísitölunni, en hann dró mjög í efa getu Hagstofunnar til að reikna hana rétt á hverjum tíma. Ég man mjög glöggt eftir orðalagi sem hann viðhafði. Hann sagði að að reikna út launavísitölu eins og gert væri ráð fyrir í lögunum væri eins og að rétta vísifingur upp í loft og reyna að átta sig á því hvaðan vindurinn blési. (Gripið fram í.) Það er þessi aðferð.
    Þetta er ein af ástæðum þess að ég hafði efasemdir. Önnur ástæðan er sú að ég hef nokkrar áhyggjur af því að launavísitalan vegi þyngra inn í og þyngra á lánskjaravísitöluna en hún hefur gert að undanförnu og hygg nú að það muni koma í ljós að einhverju leyti á næstunni þó að dregið hafi verið úr áhrifum launanna á lánskjaravísitöluna.
    Ég hef líka áhyggjur af því að sá samanburðarmöguleiki sem mun koma upp á milli launþegahópa eftir að launavísitalan verður birt mánaðarlega eigi eftir að valda tilteknum erfiðleikum.
    Þetta eru meginforsendur þess að ég hef undirritað þetta nál. með fyrirvara.
    Ég sé líka fyrir mér að allar launahækkanir sem munu eiga sér stað í þjóðfélaginu á næstunni og verða til þess að hækka lánskjaravísitöluna eru til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur í þjóðfélaginu. Þetta minnir á að það væri full nauðsyn á því að taka upp skynsamlega umræðu í þinginu um lánskjaravísitöluna og stöðu hennar, áhrif hennar á allar hagstærðir í þjóðfélaginu. Það má ugglaust ræða um afnám hennar, en einn þáttur hennar sem ég vildi gjarnan fá í burtu eru áhrif óbeinna skatta á lánskjaravísitöluna sem ég tel vera ákaflega óréttmæt og í raun verulega ranglát.
    Ef við rennum huganum aðeins aftur í tímann og íhugum hvað gerðist þegar ákveðið var að setja söluskatt á matvæli, þá gerðist það einfaldlega að hækkun söluskatts á matvælum hækkaði lánskjaravísitöluna sem síðan hækkaði skuldir einstaklinga og hafði áhrif á greiðslubyrðina að verulegu leyti og hefur vafalítið komið verst við þá sem mest skulduðu og höfðu mest við peningana að gera til að greiða fyrir þessi tilteknu matvæli.
    Ég hygg að menn mættu íhuga nokkuð hvort ekki mætti taka áhrif óbeinu skattanna út úr lánskjaravísitölunni þó að ekki væri það nú annað. Það mundi breyta vægi hennar að verulegu leyti og gera hana að mínu mati réttlátari. Því meira sem ég hugsa um þessa verðtryggingu eins og henni er háttað hér á Íslandi, því meiri andúð fæ ég á henni. Ég hygg að hún sé ranglega upp byggð og þurfi endurskoðunar

við að mjög verulegu leyti. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að verðtryggingarþátturinn hafi haft meiri áhrif í þá veru að gera fyrirtækjunum í landinu erfitt fyrir, auka greiðslubyrði fyrirtækjanna og einstaklinganna, en nokkur annar einstakur þáttur í efnahagslífi íslensku þjóðarinnar. Ég held að það hafi átt sér stað meiri tilfærsla á fjármagni í þjóðfélaginu m.a. af þessum ástæðum. Fjármagnið hefur verið fært frá skuldugum fyrirtækjum og skuldugum einstaklingum inn í banka og fjármálastofnanir eins og reikningar þeirra bera glöggt vitni sem hafa haldið sína ársfundi undanfarnar vikur og birt tölur um stórfelldan hagnað af sinni starfsemi.
    Ég vil þess vegna eindregið hvetja til þess að hér á hinu háa Alþingi fari menn að hefja skaplega og skynsamlega umræðu um þátt lánskjaravísitölunnar í hagkerfinu. Ég hygg að það muni allir viðurkenna að það séu ekki mörg lönd á heimsbyggðinni sem nota bæði verðtryggingu og háa vexti eins og við höfum gert til skamms tíma. Þó að nokkur árangur hafi náðst í því að lækka vexti að undanförnu er það verðtryggingin sjálf sem mestum vandanum veldur.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og mun ekki koma í veg fyrir að þetta mál fái réttmætan framgang. Ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að fjh.- og viðskn. deildarinnar fái málið aftur til skoðunar ef það mætti verða til þess að skýra betur ýmsa þætti þess sem menn hafa haft efasemdir uppi um og vil eindregið hvetja til þess að það verði gert.