Úreldingarsjóður fiskiskipa
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það hefur nú ekki borið mikið á málefnum sjávarútvegsins á því þingi sem nú er senn að ljúka. Í sjútvn. Nd. hafa komið þrjú mál á þessu þingi þangað til nú að tvö frv. eru flutt af ríkisstjórninni eða hæstv. sjútvrh. sem vísað var til nefndarinnar í dag og væntanlega að lokinni þessari umræðu.
    Það mál sem fyrir sjútvn. Nd. liggur var frv. um bann við hvalveiðum sem nefndin var sammála um fyrir utan flm. að láta liggja og afgreiða ekki eins og ástand og horfur eru þar. Hitt frv. var breyting á lögum frá 1922 um leyfi til landana af fiski sem er aflað utan fiskveiðilögsögu og flutt er af tveimur hv. þm. stjórnarinnar. Umsagnir um það mál hafa verið með þeim hætti að bæði úr hópi útgerðarmanna og sjómanna er lagst gegn þessu ágæta máli, en þar þykir alveg sjálfsagt að Íslendingar geti siglt til annarra landa eins og Færeyja og veitt jafnvel innan grænlenskrar lögsögu, en það má ekki, að dómi þessarra ágætu manna, leyfa skipum þessara þjóða að landa afla hér á landi og auka þannig framleiðsluverðmæti þjóðarinnar og verð ég að segja það þó að þessi lög hafi verið góð á sínum tíma, 1922 og lengi eftir það, eru þau fyrir löngu orðin úrelt og ég tel að frv. þessara tveggja stjórnarþingmanna sé því bæði þarft og gagnlegt því það kveður aðeins á um að veita undanþágu þessum nágrannaþjóðum okkar, Færeyingum og Grænlendingum. Mér þykir grátlegt að þetta litla frv., sem var flutt líka á síðasta þingi, skuli ekki hafa verið afgreitt.
    Þriðja frv. sem liggur fyrir nefndinni er frv. sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef flutt um gjörbreytingu á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þar hefur komið sama í ljós, að ákveðnir aðilar telja ekki rétt að gera þessa breytingu og það er aðallega af þeirri einu ástæðu að því sem eftir verður í sjóðnum sé ekki réttlátlega deilt út. Ég tel algjört aukaatriði eftirstöðvarnar í verðjöfnunarsjóði, heldur er hitt höfuðatriðið að gera grundvallarbreytingu á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins í þá veru að fyrirtækin sjálf eigi það sem þau leggja sjóðnum til og þegar greitt er úr sjóðnum fái þau aðeins greitt það fjármagn sem þau hvert fyrir sig hafa lagt sjóðnum til. Áfram yrði heildarstjórn sem ákvæði inngreiðslur og útgreiðslur eftir svipuðum reglum og svipuðum nótum og verið hafa.
    Í tíð fyrrv. ríkisstjórnar fór fram athugun á framtíðarverkefnum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og í framhaldi af því lýsti þáv. hæstv. utanrrh. því yfir, núv. hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin hefði samþykkt að leggja niður verðjöfnunarsjóðinn og gerði það á fundi í bæjarráði Ísafjarðar. Ég hrökk allónotalega við og spurði þáv. forsrh. hvort þetta væri virkilega ákvörðun, en hann kannaðist ekki við það.
    Áfram hefur verið haldið og þegar ég ásamt Pálma Jónssyni, hv. 2. þm. Norðurl. v., flutti frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins brást hæstv. þáv. og núv. sjútvrh. mjög hart við þeirri ódæma frekju manna

að flytja slíkt frv. og ég held að það hafi verið orðað að þetta væru alveg furðuleg vinnubrögð af hálfu samstarfsflokks og birtist stór og mikil fyrirsögn um þetta í Tímanum. Ég sé líka að hér inni er varaþingmaður sem er fyrir hv. 4. þm. Norðurl. v. Hann flutti fsp. um þetta atriði og fékk svör frá hæstv. sjútvrh. sem bjóst þá við að þessi nefnd mundi ljúka störfum og þar af leiðandi ákvörðun tekin í byrjun 2. ársfjórðungs 1988. Það ár er liðið eins og menn vita og byrjaður að renna út fimmti mánuður á árinu 1989 og ekki bólar á nokkrum frumvarpsflutningi hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum.
    Þetta finnst mér vera heldur bágborin vinnubrögð. Hins vegar má maður ekki gleyma því að ríkisstjórnin mundi eftir því, þegar hún var mynduð á sl. hausti, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins er til. Hún hætti þá við að leggja han niður, en heimilaði frystideild sjóðsins að taka 800 millj. kr. að láni til að greiða með afurðum frystihúsanna í landinu eða um 5% og lét þessa deild, sem ekkert átti til, taka lánið þó að það væri vitað fyrir fram að hér væri ríkissjóður að taka lán sem hann þyrfti að borga þegar þar að kemur en ekki sú deild sem enga fjármuni á.
    Þetta eru sem sagt þau þrjú mál sem hafa verið til umræðu á þessu athafnasama Alþingi sem fer nú að ljúka störfum.
    Í gær kom til umræðu breyting á lögum um Fiskveiðasjóð sem ég ætla ekki að endurtaka hér. Ég gerði athugasemdir við það frv. og tel að sú breyting sé síst til bóta frá því sem var þegar Fiskimálasjóður var til og hélt uppi eðlilegri starfsemi.
    Þetta frv. sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir er um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Við höfum heyrt þetta áður. Það hafa verið starfandi tveir sjóðir sem höfðu það hlutverk að greiða fyrir úreldingu. Annars vegar er Aldurslagasjóður sem var gerður að deild í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og varð til í maí 1978. Hinn sjóðurinn var stofnaður fyrir frumkvæði núv. hæstv. forsrh. sem þá var sjútvrh., Úreldingarsjóður. Þessir sjóðir lögðu sitt af mörkum á tímabili, en eftir að kvótakerfið var tekið upp má segja að þeir hafi orðið óvirkir og ekki náð tilgangi sínum af þeirri ástæðu að það var reynt að halda í hvern bátkopp vegna kvótans.
    Þessi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hafa marglýst því yfir að þær vilji gera allt sitt til að minnka fiskiskipaflotann, hann sé of stór miðað við afkastagetu. Það sé líka of mikil sókn í fiskistofnana sem við verðum að umgangast með mikilli varúð.
    Við höfum sett ákvæði um hvað við ætlum að veiða á hverju ári. Fyrst koma fram tillögur Hafrannsóknastofnunar, síðan kemur fram tillaga frá sjútvrn. sem vafalaust er lögð fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma. Þetta á að verða til þess að draga úr sókninni, hafa meiri hemil á veiðum þannig að það sé farið eftir því sem í upphafi árs er ákveðið.
    Ég held að það sé þess virði að rifja nokkuð upp hvernig til hefur tekist í þessum efnum. Ég ætla ekki að taka allar fisktegundir, það yrði of langt mál upp

að telja, en ég minni á að 1980 var tillaga fiskifræðinga 300 þús. lestir sem mátti veiða af þorski, en veiðin reyndist þegar árið var liðið vera 428 þús. lestir. Það voru rúmlega 40% fram yfir þá veiði sem lagt var til. Sama er að segja um karfann. Það var ákveðið að veiða þar 50 þús. lestir. Hann fór í 70 þús. lestir. Og aukningin í grálúðuna fór 100% næstum því fram yfir það sem áætlað var eða úr 15 þús. í 28 þús. lestir.
    Árið 1981 var tillaga fiskifræðinga um að veiða 400 þús. tonn af þorski, en veiðin nam 461 þús. tonnum. Karfinn var ákveðinn 65 þús. lestir. Það fór í 93 þús. lestir veiðin.
    Árið 1982 varð töluverð breyting frá upprunalegu tillögunum því þá voru tillögur fiskifræðinganna um 450 þús. lestir af þorski, en veiðin nam þá ekki nema 382 þús. lestum. Hins vegar fór karfaveiðin næstum því 100% fram úr því sem áætlað var. Þá greip um sig mikil hræðsla, nú væri allur þorskurinn búinn í sjónum, og fiskifræðingar lækkuðu sig skyndilega á næsta ári úr 450 þús. tonnum í 350 þús. tonn og það fór aftur á sömu leið, það aflaðist ekki nema 293 þús. tonn og svartsýnin náði gífurlegum tökum á flestum þeirra sem útgerð og fiskveiðar stunda. En karfinn fór aftur fram úr áætlun eða úr 80 þús. lestum í 123 þús. lestir.
    Eftir þessi tvö ár lækkuðu fiskifræðingar sig mjög verulega og fóru í tillögum sínum niður í 200 þús. lestir árið 1984. Þá ákváðu stjórnvöld að veiddar skyldu 220 þús. lestir, en þá brá svo við að veiðin fór í 282 þús. lestir. Þá skeði það t.d. í karfaveiðinni að tillaga fiskifræðinganna var 90 þús. lestir, stjórnvalda 110 þús. og þá veiddist eiginlega nákvæmlega það sama og stjórnvöld höfðu lagt til.
    Árið 1985 er tillaga fiskifræðinga óbreytt hvað þorskinn snertir, en stjórnvöld ákveða að hækka sig frá tillögu fiskifræðinga um 50 þús. lestir eða um 25%. En þá skeður það að veiðin verður 323 þús. lestir á árinu 1985. Þegar þessi útkoma er svo góð breyta fiskifræðingar aftur tillögu sinni og hækka hana um 50% á milli ára eða úr 200 í 300 þús. lestir og stjórnvöld ákveða þá að halda sig við tillögu fiskifræðinga hvað varðar þorskinn, en þá reynist veiðin vera 366 þús. lestir af þorski. Á árinu 1987 halda fiskifræðingar sig við sömu tillögu, en stjórnvöld hækka sig upp í 330 þús. lestir en þá verður veiðin 390 þús. lestir.
    Árið 1988 eru áætlaðar tölur sem ég hef ekki fengið staðfestar, en þá var tillaga fiskifræðinga þriðja árið í röð 330 þús. lestir en stjórnvöld lækkuðu sig frá árinu á undan um 15 þús. lestir í þorski. En þá reyndist veiðin 369 þús. lestir.
    Á þessu sést að það hefur ekki verið samræmi á milli þessara áætlanagerða, hvorki tillagna Hafrannsóknastofnunar né stjórnvalda né hinna raunverulegu veiða. Að jafnaði hefur veiðin farið langt fram úr því sem að var stefnt hverju sinni að undanskildum þeim tveimur árum sem ég rakti áðan.
    Þetta eru í grófum dráttum viðhorfin til fiskveiðanna og þá komum við aftur að stærð

fiskiskipastólsins. Hvernig hefur nú tekist til í sambandi við að halda honum niðri og minnka fiskiskipastólinn? Árið 1984 voru fiskiskipin samtals 836 upp á 111.772 brúttólestir. Þar af voru skuttogarar 101 eða upp á rúmlega 48.000 lestir, önnur fiskiskip 227 eða upp á 50.570 lestir, þ.e. sem sagt önnur fiskiskip 100 lestir og yfir, og 99 lestir og minni voru 508 skip upp á 13.072 lestir, opnir vélbátar voru 1461 eða upp á 4835 lestir.
    Til þess að gera þessa upptalningu ekki of langa ætla ég aðeins að nefna fiskiskipin alls og brúttólestir á hverju ári. Árið 1985 voru 834 skip upp á 112.847 lestir. Þau eru svipuð 1986 eða 832 upp á 112.594 lestir og þau eru aðeins færri 1987. Þá fara þau niður í 822 eða í 112.391 lest. En 1988, þá er kvótakerfið búið að sýna ágæti sitt á öllum sviðum, verður fjöldi fiskiskipa 899 og fer upp í 117.452 lestir. Við skulum ætla að nú hafi bremsan verið sett á. En 1989 fara þau upp í 957 skip, 120.698 lestir. Brúttólestatalan jókst á fjórða þúsund lestir á milli áranna 1988 og 1989.
    Skipting í stærðarflokka, sem er tekin saman í ársbyrjun 1989, sýnir að skuttogarar eru 110, önnur fiskiskip yfir 100 lestir 233 og 99 lestir og minni 614, en opnir vélbátar eru þá komnir upp í 1623. Þar hefur orðið veruleg fjölgun frá fyrri árum. Fiskveiðistefnan hefur haft áhrif bæði á veiðar og líka á skipastólinn. Ég held að það hafi hrapallega til tekist í sambandi við
þá viðleitni að ætla að halda skipastólnum niðri og fækka skipum verulega. Kvótakerfið gerði það að verkum að reynt var að halda öllum skipum á skipaskrá sem mögulegt var vegna kvótans. Allir vildu halda dauðahaldi í kvótann sinn. Nú er sagt: Þetta er ekkert að marka því þetta fyrirkomulag um stjórnun fiskveiða er ákveðið fyrir svo fá ár í einu. Ég held að ekkert af þessu hafi haft nein áhrif. Ég held að miklu árangursríkara hefði orðið að viðhalda og bæta hið gamla kerfi og halda áfram með Úreldingarsjóðinn.
    Það var eiginlega óþarfi af hæstv. sjútvrh. að segja í blaðagrein að ég hefði barist gegn því af mikilli hörku að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði breytt á sínum tíma. Ég var alveg sammála hæstv. sjútvrh. um margar breytingar. Þegar ég var sjútvrh. stóð ég sjálfur að stórfelldum breytingum á sjóðakerfinu 1. febrúar 1976 með niðurlagningu olíusjóðsins o.fl. Þá voru viss atriði sem ég var óhress með. Ég var ekki hress með að leggja niður Aflatryggingasjóðinn að öllu leyti. Ég var alveg sammála sjútvrh. að leggja niður áhafnadeildina o.fl. sem kom fram í þessu öllu saman. Ég var ekki sammála því að leggja niður Úreldingarsjóðinn. Hvað hefur svo skeð á þessum tveimur árum? Sjútvrh., sem þá barðist fyrir því að leggja Úreldingarsjóðinn niður, tekur hann núna upp og flytur sérstakt frv. um það. Út af fyrir sig er það gott að stofna Úreldingarsjóð að nýju til þess að fækka í flotanum. En það eru einnig ýmsir annmarkar á þessu frv. sem eru mjög alvarlegir og ég ætla hér á eftir að gera að umræðuefni stórfellda skattlagningu á útveginn.

    Ég hefði talið að það hefði mátt mæta því markmiði með því að efla verulega Aldurslagasjóðinn. Taka t.d. gjald úr stofnfjársjóði af hverju skipi miðað við brúttórúmlest eftir að skip nær tilteknum aldri, t.d. 15 ára. Sú fjárhæð drægist svo frá stofnfjársjóðsgjaldinu og eflir Aldurslagasjóðinn til kaupa á gömlum skipum. Þetta hefði að mörgu leyti ekki verið óeðlilegt verkefni, síður en svo.
    Í 3. gr. frv. segir að stofnfé Úreldingarsjóðs skuli vera eftirstöðvar eigna hins eldra Úreldingarsjóðs sem varðveittar eru í skuldabréfum. Um það er ekki deilt að ríkið hefur auðvitað allan umráðarétt yfir hinum eldri Úreldingarsjóði því hann var hluti af útflutningsgjaldi. En 2. liður 3. gr. um stofnfé Úreldingarsjóðs fjallar um að eignir Aldurslagasjóðs fiskiskipa, sbr. II. kafla laganna nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, séu ekki eign ríkisins. Þar af leiðandi er það mitt álit að ríkið eða Alþingi hafi engan lagalegan rétt á því að taka þennan sjóð og stela honum hreinlega. Þeir geta alveg eins ákveðið að stela einhverjum kirkjubyggingarsjóði eins og þessu. Ég skil ekki í því að það skuli vera lagt fram í frumvarpsformi á Alþingi Íslendinga að ætla að taka hann með öllu.
    Ég ætla að minna hæstv. sjútvrh. á að þegar lögunum um Samábyrgð Íslands var breytt 1978 vann nefnd að þeirri breytingu sem var fólgin í því að leggja niður bráðafúadeild Samábyrgðarinnar, sem Alþingi ákvarðaði að setja á stofn 1958 vegna þess að hún var þá orðin óþörf. Þá var leitað samninga við útvegina almennt um að stofna þessa aldurslagadeild. Það náðist um það fullt samkomulag að útgerðin greiddi ákveðin iðgjöld, sem yrði þá breytt frá ári til árs eftir tillögum stjórnar þessa sjóðs, og bætur færu svo eftir því sem ráðherra ákveður. Þessi Aldurslagasjóður Samábyrgðar var því hreint vátryggingarfyrirtæki, algert vátryggingarfyrirtæki, þessi sjóður sem er eign þeirra sem í hann hafa greitt. Það eru þeir sem hafa greitt iðgjöldin sem eiga þennan sjóð en ekki ríkisstjórnin eða Alþingi. Þau eiga ekkert í þessu nema einhverjir hér inni eigi báta og hafi greitt í sjóðinn, þá eiga þeir einstaklingar sína hlutdeild í þessum sjóði. Það er því furðulegt að heyra það að það eigi bara að taka þetta. Þetta er eignaupptaka, þetta er lagabrot og stjórnarskrárbrot, alveg tvímælalaust. Það verða allir aðilar að samþykkja þetta sem þarna hafa lagt inn peninga í þessu formi. Því finnst mér 2. liður 3. gr. frv. alveg ferleg vansmíð og vanhugsuð að öllu leyti. Ég hreinlega skil ekki hvernig á því stendur að svona er lagt fram á hv. Alþingi.
    Ef við lítum á ástand og horfur í sjávarútvegi og hlustum á þá menn sem gerst þekkja tel ég að verið sé að leggja ansi þungan skatt á sjávarútveginn með 4. gr. Þar er eigendum fiskiskipa sem eiga báta 10 brúttólestir eða stærri ætlað að greiða gjald til Úreldingarsjóðs. Þetta gjald á að nema 1000 kr. af hverri brúttórúmlest, en þó skal gjaldið aldrei vera hærra en 300 þús. kr. fyrir hvert skip. Gjalddaginn er ákveðinn 1. janúar ár hvert. Það er líka eftirtektarvert

við frv. að gert er ráð fyrir því að á þessu ári falli niður álagningargjald til Aldurslagasjóðs en þess í stað er gert ráð fyrir að gjald skv. 4. gr. frv. verði lagt á á þessu ári. Með öðrum orðum, ætlast er til þess og beinlínis ákveðið að lögin verki aftur fyrir sig. Það er þegar komið fram í fimmta mánuð ársins og það segir að gjalddagi eigi að vera 1. janúar ár hvert. Hér er því um afturvirkni laga að ræða. Þegar kaflinn um aldurslagatryggingu var settur 1978 í maíbyrjun var gjalddaginn 1. júlí og samkomulag um öll þau mál og allt það fyrirkomulag. Hér virðist það ekki þurfa.
    Svo kem ég að því sem er enn þá alvarlegra. Með frv. er verið að gera fyrstu atlöguna að því að koma hér á auðlindaskatti og aukinni miðstýringu. Á sama
tíma og Sovétríkin eru í óðaönn að fara frá Brésnéff-tímanum er verið að leiða íslenskan sjávarútveg inn á spor þeirra gömlu Brésnéffs og Stalíns. Það er hreinlega verið að fara aftur til fortíðar, til ófrelsis og miðstýringar sem er algerlega ólíðandi og það á dögum þar sem frjálsræði á að ríkja. Mér finnst þeir hafast ólíkt að Gorbatsjov og Halldór Ásgrímsson. ( Gripið fram í: Er eitthvað líkt með þeim?) Nei, það virðist ekki vera. Annar er maður frelsis og framfara en hinn siglir í átt til gamla Brésnéffs. Það er ömurlegt að hæstv. sjútvrh. skuli fara inn á þessa braut.
    Hér á sem sagt að taka það upp að Úreldingarsjóður kaupi skip, hann á að eignast kvóta. Ég held að nóg sé þegar að gert í þessari ofstjórn á fiskveiðum okkar. Við deilum ekki um að við verðum að hafa stjórn á fiskveiðum, það deilum við ekki um. En að æðsta stjórnvald í landinu eigi að vera niðri í hvers manns koppi, ákveða hvað hver bátkoppur má fiska og það meira að segja hverjir gera út. Þetta er í raun og veru orðið óþolandi. Ég get fyrirgefið mönnum sem hafa þau forréttindi að mega selja fiskinn í sjónum að þeir séu veikir fyrir þessum forréttindum. En við öll hin sem höfum engin forréttindi þurfum ekkert að vera veik fyrir þessu. Það er alveg eins og með lénsherrana, þeir báðu ekkert um að kollvarpa lénsskipulaginu, það voru aðrir. Það voru öldur frjálsræðis sem gerðu það. En aumingja lénsherrarnir urðu bara að láta undan. Þess vegna eigum við ekki að fara inn á sömu brautir.
    Það hefði verið auðvelt verk fyrir tæpu hálfu öðru ári að ná verulegri samstöðu hér um stjórnun fiskveiða ef sýnd hefði verið meiri lipurð í þeim efnum og þá stæðum við núna ólíkt betur á vegi. En það var ekki gert. Það var hreinlega reynt að koma í veg fyrir að víðtæk samstaða næðist og um sumar tillögur þurfti að beita menn hörðu því það var ekki meiri hluti fyrir því á Alþingi Íslendinga að láta þau lög fara þannig í gegn. Það var eins og oft áður hótað stjórnarslitum og það er eins og sumir þurfi alltaf á því að halda að reyna að knýja fram. En það er enginn okkar það öruggur og viss að hann einn viti allt í fiskveiðimálum. Það er enginn svo fullkominn að hann þurfi ekki líka að sjá með augum annarra.
    Þegar fiskveiðilögin voru sett árið 1976 voru gerðar á þeim margar breytingar í hv. Alþingi. Þær

voru gerðar til þess að ná víðtækri samstöðu, ekki eingöngu milli stjórnarflokka sem þá voru heldur einnig við stjórnarandstöðu og það náðist afar góð og víðtæk samstaða í þeim efnum. Það hefði þurft að gerast einnig fyrir rúmu ári.
    Ég ætla að segja hæstv. sjútvrh. það og það í fullri vinsemd að þetta frv. er afskaplega gallað og á því er stór vansmíði. Markmiðið með úreldingu og að minnka flotann deilum við ekki um. Af hverju mátti ekki viðhalda og fela Aldurslagasjóðinn? Hvað mælti á móti því og gerði það að verkum? Sjóðakerfisnefndin sagði aldrei að hún legði til að honum yrði stolið, alls ekki. Hún talaði um að það þyrfti að endurskoða hann. Vitaskuld eru engin lög svo fullkomin að ekki þurfi að endurskoða þau með einhverju millibili. Ég hefði fúslega fyrir mitt leyti fallist á margvíslegar breytingar á þeim, eins og ég nefndi hér snemma í þessari ræðu minni. Ég tel að það sé borin von að frv. geti farið í gegn á þessu þingi ef það er rétt að ekki sé nema vika til þinglausna. Frv. þarf að fá ítarlegri umræðu og umfjöllun. Ég hélt því að hæstv. ráðherra liti svo á þegar hann mælti fyrir frv. nú að það hafi verið þá meira í þá átt að sýna frv. en að ætlast sé til að það verði afgreitt.
    Herra forseti. Ég ætla ekki við þessa umræðu að flytja öllu lengra mál. Ég á sæti í þeirri nefnd sem væntanlega fær frv. og þar gefst mér og öðrum kostur á að fylgja okkar skoðunum betur eftir.