Undirritun gerðabókar
Föstudaginn 05. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Inni í þingdeildinni eru nú 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11, 12, 13 þingmenn sem skv. 45. gr. þingskapalaga þýðir með öðrum orðum að fundurinn sé ekki ályktunarbær. En þar sem forseta er mjög í mun að afgreiða gerðabókina nú óska ég nafnakalls um þá afgreiðslu til þess að skýrt komi fram að fundurinn er ekki ályktunarbær og afgreiðsla fundargerðar á þessum fundi væri lögleysa og rökleysa eins og afgreiðsla tveggja fundargerða á næstsíðasta fundi sameinaðs þings. Þar sem ég var of seinn til að hreyfa andmælum geri ég ráð fyrir því að úrskurður félli á þá lund að ég ætti erfitt með að sýna fram á nú að of fáir þingmenn hafi verið staddir í salnum til þess að afgreiða gerðabækur á þeim fundi, en nú blasir við að hafa nafnakall um þessa afgreiðslu, um það hvort fundurinn samþykki afgreiðslu gerðabókar, sé ályktunarbær. Ég tek undir með hæstv. forseta. Ég óska vissulega eftir því að sú atkvæðagreiðsla og afgreiðsla fari fram þegar í stað um leið og ég hef lokið máli mínu.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti sjái til að slíkri málvenju verði fylgt. --- Ef hæstv. forseti mætti hlýða á mál mitt án þess að stofna til annarra funda úr forsetastóli var ég að bera fram þá hógværu og sjálfsögðu ósk að hæstv. forseti hlutist til um það og sjái til þess að íslensk málvenja sé ekki brotin í fyrirsögnum þingskjala og hér standi ,,kl. 12 á hádegi``.