Undirritun gerðabókar
Föstudaginn 05. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Því miður verð ég að draga í efa að hæstv. forseti fari rétt með þegar hann gefur í skyn að hann hafi ekki áttað sig á hversu fáir þingdeildarmenn séu hér í salnum. Ég minni á það að þegar ég gerði athugasemd um þetta fyrir tveim fundum hafði hæstv. forseti við orð að ekki skipti máli hversu margir þingmenn væru í þingsalnum heldur í húsakynnum Alþingis og bar svo að skilja að hæstv. forseti væri að raka saman dreifarnar eftir einhverjum merkjaljósum sem hann hefur við forsetaborðið. Nú hefur hæstv. forseti sennilega talið að erfitt væri að koma nafnakalli við þannig að þingmenn gætu gert grein fyrir atkvæði sínu hvar sem þeir væru staddir í húsakynnum Alþingis.
    Ég vil enn fremur minna á það, hæstv. forseti, að á meðan góð regla var á störfum þingsins brást það ekki að beðið var með að setja fund, hvort heldur var í Sþ. eða deildum, þangað til meiri hluti þingmanna og einum betur væri mættur þannig að hægt væri að afgreiða gerðabækur. Ég hygg ég fari líka rétt með að sá gamli þingskörungur, Gísli Jónsson, þingmaður Barðstrendinga, hafi eitt sinn á fundi Ed., þegar hann hafði beðið í korter eftir því að meiri hluti deildarinnar mætti í deildinni, haft nafnakall til þess að skjalfest yrði hvaða þingmenn það væru sem mættu á réttum tíma. Ég fór fram á það hér áðan, hæstv. forseti, að nafnakall yrði haft í þingsalnum. Að vísu má vera að þetta fámenni stafi af því að fundartími er á næsta óvenjulegum tíma, kl. 12 á hádegi. Sumir þingmenn eru búnir að vera á fundum síðan snemma í morgun og eiga kannski einhverjum erindum ólokið. Eftir sem áður hygg ég að við séum allir þingmenn sammála um eða ættum a.m.k. að vera sammála um að það sýndi þegar í stað meiri festu í þingstörfum ef hæstv. forseti treysti sér til þess að fara eftir þeirri reglu á nýjan leik að meiri hluti þingmanna væri mættur þegar fundur er settur. Það er að vísu ekki bann við því í þingsköpum að forseti megi setja fund undir slíkum kringumstæðum að minni hluti þingmanna sé í salnum, en um leið og menn gefa eftir á þeim punkti fara menn líka að víkja á öðrum punktum einnig. Nú hefur það sem sagt komið fyrir á tveim fundum hverjum á fætur öðrum, að vísu einn fundur á milli svo ég fari nákvæmlega með, að afgreiða gerðabók þó svo að fjarri sé því að meiri hluti þingmanna sé staddur í sameinuðu þingi. Þetta er lausung og los. Má vera að nauðsynlegt sé fyrir þingmenn að íhuga að rétt sé að kveða skýrt á um það í þingsköpum að óheimilt sé að setja fund nema meiri hluti þingmanna sé viðstaddur. Þetta þótti ekki nauðsynlegt áður meðan þinginu var stjórnað af röggsemi, en ef undansláttur á að verða í stjórn þingsins og undanbrögð er óhjákvæmilegt að ákvæðin í þingsköpum séu þeim mun ítarlegri og nákvæmari til þess að þau geti orðið hæstv. forseta til leiðbeiningar.
    Ég fullyrði að fyrir því eru engin dæmi frá fyrri árum að gerðabók hafi verið samþykkt án þess að lögmætur meiri hluti væri í deildinni eða sameinuðu þingi og ítreka það, sem ég sagði, að ég óska eftir því

að atkvæðagreiðsla fari fram um gerðabókina þegar í stað og ég óska eftir nafnakalli um þá atkvæðagreiðslu til þess að fáist úr því skorið hvort nægilegur fjöldi þingmanna sé staddur hér í salnum til að sú afgreiðsla megi verða lögleg.