Söluátak spariskírteina
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Samkvæmt lánsfjárlögum er fjmrh. heimilað að taka lán innan lands að fjárhæð allt að 5,3 milljörðum kr. og hygg ég að ríkissjóði veiti ekki af að þetta fé náist inn. M.a. í því skyni ákvað ríkisstjórnin fyrr á þessu ári að efna til nýs átaks til að safna áskriftum að spariskírteinum ríkissjóðs þar sem lofað var, ef ég man rétt, 7% vöxtum og jafnframt útskýrt að viðkomandi gæti látið þann sparnað fara fram í gegnum kreditkort og var svo mikið við haft að auglýsingabæklingur í öllum regnbogans litum var borinn inn á öll heimili í landinu. Þetta kostaboð var gert á sama tíma og ríkisstjórnin talaði um það í hinu orðinu að nauðsynlegt væri að lækka raunvexti mjög verulega. Af þessu tilefni lagði ég fram fsp. til fjmrh. svohljóðandi:
,,1. Hversu margir einstaklingar hafa nýtt sér tilboð um áskrift að spariskírteinum ríkissjóðs?
    2. Fyrir hversu hárri fjárhæð hafa þessir einstaklingar skuldbundið sig?
    3. Hversu mikill var heildarkostnaðurinn við söluátakið orðinn 31. mars sl. og hvernig skiptist hann milli einstakra kostnaðarliða?
    4. a. Hver var heildarsala spariskírteina ríkissjóðs fyrstu þrjá mánuði þessa árs? b. Hver var heildarinnlausn spariskírteina ríkissjóðs á sama tíma? c. Hverjar voru áætlanir fjmrn. um sölu og innlausn spariskírteina ríkissjóðs á sama tíma?``