Söluátak spariskírteina
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég er orðinn vanur því að einstakir ráðherrar og ríkisstjórnin í heild kenni einatt öðrum en sjálfum sér þegar ekki gengur eins og ráðgert hefur verið. Þannig er um það samkomulag sem gert var í bankakerfinu um kaup og sölu á ríkisskuldabréfum að það var ekki eftirspurn eftir bréfunum eins og vænst hafði verið. Sú var skýringin á því að þau seldust ekki, en alveg fjarri sanni að halda því fram að hér hafi ekki verið byggður upp markaður fyrir spariskírteini ríkissjóðs. Sá markaður hefur verið byggður upp jafnt og þétt a.m.k. þrjá áratugi. Ég man ekki alveg hvenær farið var að bjóða ríkisskuldabréf verðtryggð til sölu og skattfrjáls, en það eru a.m.k. þrír áratugir síðan þannig að þessi markaður er fyrir hendi.
    Ég vil svo óska hæstv. fjmrh. til hamingju með það að hann skuli hafa fundið þarna tilefni til enn einnar nýrrar stöðuveitingarinnar. Nú ætti það að vera einhver sérstakur stjórnandi sparnaðar ríkissjóðs eða sölu á spariskírteinum ríkissjóðs og væri fróðlegt að hæstv. fjmrh. upplýsti hér á eftir hvort gert hafi verið ráð fyrir fjárveitingum til þess arna í fjárlögum fyrir þetta ár eða hvort hér sé um umframeyðslu að ræða fram yfir það sem í fjárlögum segir því enginn fjmrh. hefur verið jafnstóryrtur þessum um að nauðsynlegt sé að halda sig við fjárlögin eins og þau leggja sig og sérstakur kapítuli um það að fremur beri að segja starfsmönnum ríkisins upp störfum en ráða nýja.
    Eins og fram kemur í tölum hæstv. ráðherra er sterk tilhneiging meðal sparifjáreigenda til að losa sig við spariskírteinin en innleysa ekki ný í staðinn. Þetta er sama þróun og verið hefur annars staðar í þjóðfélaginu. Í bönkunum hefur dregið úr sparnaði og er það raunar afleiðing af þeirri stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið.
    Ég vil reyna, hæstv. forseti, að halda mig við þingsköpin. Ræðutími minn er á þrotum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör en þau sýna að sparnaður hefur dregist verulega saman og það söluátak sem nú er í gangi hjá ríkisstjórninni sýnir einnig að hæstv. ríkisstjórn er ekki alvara þegar hún talar um að beita sér fyrir lækkun raunvaxta því að tilburðir hæstv. fjmrh. sýna allt annað.