Söluátak spariskírteina
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að hv. þm. Halldór Blöndal hefur ekki vænst þess að fá það fóður í árásir sínar á hæstv. ríkisstjórn í svörum sem hann kannski bjóst við. Það sýnir ekki skort á sparnaðarviðleitni í landinu að á einum mánuði skuli spariskírteini ríkisins hafa selst fyrir um það bil 300 millj. kr. eins og hefur verið reyndin í aprílmánuði og ég lýsti áðan.
    Það er líka misskilningur hjá hv. þm. að verið hafi gagnrýni í mínum orðum á framgöngu bankanna vegna þess samnings sem gerður var á sínum tíma. Staðreyndin var hins vegar sú að bankarnir höfðu mjög lítinn áhuga á þessari sölu einfaldlega vegna þess að bankarnir voru sumir hverjir að gefa út bréf, svokölluð bankabréf, í samkeppni við sparskírteini ríkissjóðs þannig að það er ósköp eðlilegt að söluaðilar sem eru að búa til sína eigin vöru og vilja selja hana á sama markaði hafi minni áhuga á að selja þá vöru sem kemur frá öðrum.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að spariskírteini ríkissjóðs hafa verið traust vara í aldarfjórðung. Engu að síður hafði verið vanrækt og voru allir sammála um það að vinna nýjan markað fyrir spariskírteini ríkissjóðs sérstaklega hjá yngra fólki, hjá nýjum þjóðfélagshópum og ýmsum þeim öðrum sem e.t.v. höfðu ekki nægilega skýrar upplýsingar um eðli þessara skírteina. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að efna til samstarfs milli Seðlabankans og fjmrn. um sérstaka sölu þessara skírteina er sú að það hafa orðið það miklar breytingar á peningamarkaðnum hér á undanförnum árum að það var nauðsynlegt ef árangur átti að nást að sérstaklega væri skipulagt af hálfu fjmrn. og Seðlabankans hvernig mætti tryggja þessa sölu. Það er ástæðan fyrir því að ákveðið hefur verið að ráða virtan einstakling til að stýra þessum verkum í samvinnu Seðlabankans og fjmrn. Frá þeim málum er verið að ganga þessa daga og verður Alþingi að sjálfsögðu gerð grein fyrir því þegar niðurstaða hefur fengist.