Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Í maíbyrjun í fyrra voru afgreidd lög um framhaldsskóla frá Alþingi. Við kvennalistakonur sáum marga galla á því frv. sem þá varð að lögum og gerðum ýmsar brtt. bæði varðandi stjórnunarkafla laganna og ýmis atriði varðandi skólastarfið. Við urðum varar við það í umfjöllun um frv. að hugmyndir manna um blöndun nemenda með mismunandi námsgetu voru mjög skammt á veg komnar og erfitt var að fá ótvíræðar upplýsingar um hvað þáv. menntmrh. ætlaðist fyrir varðandi t.d. fatlaða nemendur. Rannsóknir á blöndun í skólum benda til þess að þegar vel tekst að móta samskipti auki slíkt reynslu nemenda og glæði jákvæða sjálfsmynd þeirra. En til þess að svo megi verða verður að koma til náin samvinna og mikið samstarf þeirra sem eiga að vinna að málinu.
    Við kvennalistakonur vildum hafa alveg á hreinu í fyrra hvort í raun væri ætlunin að stíga skrefið til fulls og gerðum margar brtt. sem m.a. gerðu ráð fyrir sérgreindum fjárframlögum til framhaldsskóla til að mæta sérstökum þörfum sem þessum. Á undanförnum árum hafa margir fjölbrautaskólanna boðið upp á fornámsáfanga í kjarnagreinum, en þær eru upprifjun á námsefni grunnskólans. Erfitt er að meta heildarárangurinn af fornáminu og ómögulegt að fá upplýsingar um námsferil og námsárangur nemenda sem hefja nám í fornámi. Það er víst að margir nemendur ná sér á strik, en það eru líka margir sem þurfa á annars konar uppbyggingu náms að halda og á öðrum námsbrautum en nú standa til boða.
    Þessa dagana erum við að fjalla um breytingar á lögum um framhaldsskóla þar sem m.a. er ætlunin að fella úr gildi skyldu nemenda til að stunda fornám. Þetta sýnist mér að hljóti að kosta mikinn undirbúning og umræðu meðal starfsfólks í skólunum og jafnvel fjölgun á starfsliði, ekki síst námsráðgjöfum. Undanfarnar vikur hefur væntanlega ekkert verið unnið að þessum undirbúningi vegna verkfalls kennara. En vegna þessara fyrirhuguðu breytinga hef ég leyft mér á þskj. 844 að spyrja hæstv. menntmrh.: 1. Hvernig mun menntmrh. standa að undirbúningi kennara og stjórnenda framhaldsskóla til þess að gera þeim kleift að sinna öllum þeim nemendum sem æskja inngöngu í framhaldsskóla landsins í upphafi næsta skólaárs? 2. Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á uppbyggingu náms á framhaldsskólastiginu nú þegar lágmarkseinkunnin er ekki lengur sett sem skilyrði fyrir inngöngu? 3. Hver er áætluð fjölgun nemenda á fyrsta ári framhaldsskóla vegna þessara breytinga og hver verður þörfin fyrir ný stöðugildi kennara?
    Það væri auðvitað ástæða til að spyrja margra fleiri spurninga um framhaldsskólann hér við þær aðstæður sem nú eru eftir þriggja vikna verkfall, en þetta eru þær fyrirspurnir sem liggja fyrir á þskj. sem ég hef beint til hæstv. menntmrh.