Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum hjá Námsgagnastofnun er talinn liðinn um áratugur frá því að tekið var að leggja áherslu á að allt nýtt námsefni tæki tillit til jafnrar stöðu kynja. Þess vegna er það auðvitað þannig að eldra námsefni er sjálfsagt meira og minna galómögulegt í þessu samhengi eins og við munum öll sem kunnum vissar setningar úr sumum bókum sem við lásum í frumbernsku.
    Þessi áhersla hefur orðið æ sterkari í Námsgagnastofnun og sl. þrjú ár hefur þetta verið eitt aðalatriðið í þeim leiðbeiningum sem Námsgagnastofnun gefur út fyrir námsefnishöfunda. Í leiðbeiningabæklingi stofnunarinnar um þetta efni segir m.a.:
    ,,Námsefni sé laust við fordóma, t.d. hvað varðar fötlun, stöðu kynjanna, stétt, búsetu, trúarbrögð og kynþætti. Bæði þarf að hafa í huga að forðast efni sem ýtir undir eða felur í sér fordóma og einnig að benda á að brjóta upp viðhorf sem ríkjandi eru og viðhalda alls kyns misrétti.``
    Nú er það þannig á síðari missirum, að því er mér er tjáð, að meiri hluti þess námsefnis sem Námsgagnastofnun hefur gefið út og notað er í grunnskólum er annaðhvort það nýtt að þar er tekið tillit til jafnrar stöðu kynjanna eða það hefur verið endurskoðað með tilliti til þess. Hér stendur: ,,meginhluti námsefnis eða meiri hluti``, en hversu stór meiri hluti skal ég ekki um segja og er sjálfsagt mismunandi eftir skólum.
    Um mat á námsefni til útgáfu fyrir grunnskóla hefur Námsgagnastofnun samráð við menntmrn., skólaþróunardeild, en um námsefni sem gefið er út af öðrum aðilum gilda engar sérstakar reglur og það er í raun og veru mjög erfitt mál fyrir okkur að setja neinar sérstakar reglur um einstaka þætti mála eins og þessa þegar efni er gefið út á vegum annarra aðila. Það er unnið að því núna í menntmrn. að móta viðmiðunarreglur fyrir námsefni og í drögum að þeim sem fyrir liggja er tekin sama afstaða bæði hvað varðar jafnrétti kynjanna og Námsgagnastofnun hefur að leiðarljósi. Þetta er í rauninni það eina sem við getum gert, þ.e. að setja viðmiðunarreglur sem höfundar námsefnis geta þá tekið tillit til.
    Í þessu sambandi bendi ég síðan á drög að aðalnámsskrá grunnskóla sem liggja hér fyrir þinginu þar sem tekið er á jafnréttismálum með nýjum hætti. Og ég vil reyndar upplýsa að í endanlegri gerð aðalnámsskrárinnar, sem var undirrituð 28. apríl sl. og verður dreift núna í næstu viku til skóla og skólafólks, er mjög ákveðin áhersla í þessu efni, bæði varðandi námsefni, kennslugögn og fleira í tengslum við jafnréttismálin.
    Ég vil svo bæta því við að á vegum starfshóps menntmrn. er verið að vinna sérstakan bækling um jafna stöðu kynja í skólum. Hann er unninn af starfshópi sem í eru Elín G. Ólafsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Tilgangur þessa rits er að vekja athygli kennara og annarra uppalenda

á ólíkri stöðu kynjanna í skólum. Þannig reynt að framfylgja 10. gr. laganna frá 1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem fjallað er um hlut mennta- og uppeldisstofnana. Skólinn byggir starf sitt á meginhugmyndum um jafnrétti og jafngildi allra manna, þar með talið jafnrétti kynjanna. Markmið sem þetta nægir þó ekki til að jafna stöðu kynjanna. Ritinu er ætlað að vekja til umhugsunar og umræðu sem leitt gæti til aukins skilnings á ríkjandi viðhorfum, jafnvel fordómum til þessara mála og hvetja til úrbóta þar sem mismunun er að finna. Í ritinu eru fyrst og fremst, eins og það liggur nú fyrir, vangaveltur, fullyrðingar, spurningar og hugmyndir. Því er ekki ætlað að vera almennt upplýsingarit um stöðu kynjanna, en þar er tekið á margvíslegum málum. Tilgangurinn er sá að opna umræður, opna hugi fólks andspænis því verkefni sem hér er á ferðinni og það er í raun og veru höfuðatriði að kennarar og þeir sem stýra frekar umræðunni í skólunum eigi aðgang að ritum af þessu tagi, jafnframt því sem námsefnið þarf að vera gott. Ég vænti þess og veit reyndar að þetta kver getur komið út síðar á þessu ári. Það liggur sem sagt fyrir í handriti og ég vænti þess að það verði einhvern tíma síðar eða upp úr miðju árinu sem það kemur út. Ég taldi rétt, virðulegi forseti, að halda þessari vinnu til haga líka í tilefni af fsp. sem ég þakka fyrir.