Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svör hans. Það var gott að fá upplýsingar um það rit sem þarna er á ferðinni. Ég tel slíkt rit geta skipt miklu máli við endurskoðun og samningu námsefnis sem tekur tillit til nútímans en ekki fortíðarinnar. Það er mjög mikilvægt að kennslubækur og námsgögn séu þannig úr garði gerð að kynjunum sé ekki mismunað og þegar verið er að tala um mismunun á kynjum verður að gefa sem raunsannasta mynd af þjóðfélaginu.
    Ef við tökum vinnumarkaðinn sem dæmi hefur áherslan hingað til verið lögð á það að hafa áhrif á stúlkur til að breyta sínu vali. Ég held að það geti haft slæm áhrif ef við reynum eingöngu að hafa áhrif á konur eða stúlkur til að fara inn í hefðbundin karlastörf. Á það hefur mér fundist vera of mikil áhersla lögð varðandi jafnréttismálin. Það er alveg ljóst að núna verðum við að nota einhverjar gamlar kennslubækur þar sem fram koma þeir fordómar sem við viljum ekki hafa inni í bókunum eins og ráðherra minntist á hér áðan. En það getur samt verið í lagi að nota slíkar bækur ef kennarar benda nemendum á hvar fordómarnir eru og hvað þarna er verið að skekkja hina raunverulegu mynd. Það þarf því ekki endilega að vera af hinu illa að nota bækur sem eru með fordómum í því að stundum geta þær raunverulega verið af hinu góða til að sýna börnunum fáránleikann. Það hefur reynst mér a.m.k. mjög vel með mín börn því ég hef nú þurft að þola ýmislegt varðandi skólabækur og reyndar ekki bara skólabækur, heldur allar bækur sem börnum er boðið upp á.
    Ég vona að þessi mál séu á réttri leið. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að skipta skyndilega um námsefni og þess vegna hef ég trú á því að þetta rit geti gert gagn sem ráðherra minntist á og verið er að gefa út með leiðbeiningum og hugleiðingum um jafnréttismál en ekki kannski endilega með ,,réttum`` skoðunum. Það er náttúrlega ekki hægt að segja fólki hvað sé rétt, heldur benda fólki á það sem miður hefur farið og af upptalningu ráðherrans á þeim sem sæju um þetta rit líst mér mjög vel á að það muni koma að gagni.