Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að málefni Siglósíldar eru skóladæmi um það hvernig Sjálfstfl. gaf flokksgæðingum sínum ríkisfyrirtæki í nafni einkavæðingar og greiddi síðan fyrir því að þeir gátu haldið starfseminni áfram án þess að greiða krónu í ríkissjóð fyrir fyrirtækið. Mér fyndist þess vegna við hæfi, virðulegi forseti, að óska eftir því að hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl. og fyrrv. fjmrh., væri viðstaddur þessa umræðu hér og fagna því að á síðustu mínútum hafa þó nokkrir þm. Sjálfstfl. gengið í salinn vegna þess að ég hélt kannski að það væri með vitund og vilja að þeir væru fjarverandi þegar þessari spurningu væri svarað. Vil ég því spyrja virðulegan forseta hvort hv. þm. Þorsteinn Pálsson sé í húsinu. Það væri æskilegt að hann væri viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Hv. 1. þm. Suðurl. er í húsinu og það er þegar búið að gera ráðstafanir til þess að biðja hann að koma í salinn.) Ég fagna því að það hefur verið ákveðið að tryggja að hv. þm. Þorsteinn Pálsson verði viðstaddur og er leitt að fyrrv. þm. Albert Guðmundsson, þáv. fjmrh. Sjálfstfl., skuli vera farinn af þingi vegna þess að það hefði verið við hæfi að hann hefði einnig verið viðstaddur til þess að taka þátt í því og kannski útskýra hvers vegna Sjálfstfl. í nafni einkavæðingar gaf flokksgæðingum sínum ríkisfyrirtæki og lét þá komast upp með að greiða ekkert fyrir það. Það er ekkert mál sem afhjúpar eins vel innihaldið í einkavæðingarstefnu Sjálfstfl. og saga Siglósíldar.
    Ég skal svara á þeim stutta tíma sem ég hef þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Fyrsta spurningin var um hvort hefði verið haft samband við fjmrn. varðandi leigu á eignum þrotabúsins til Sigluness hf. Svarið er nei, það var ekki gert. Það er sérstaklega alvarlegt vegna þess að vikum saman höfðu þessir svokölluðu eigendur fyrirtækisins reynt að fá sams konar fyrirgreiðslu í fjmrn. og þeir fengu hjá flokksbræðrum sínum, hæstv. þáv. fjmrh. Albert Guðmundssyni og formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni. Það er vissulega ánægjulegt að bæði varaformaður og formaður Sjálfstfl., helstu postular einkavæðingarinnar, skuli nú vera gengnir í salinn til þess að vera viðstaddir þegar því er lýst hvernig einkavæðingarstefnan hefur í reynd leitt til flokkspólitískrar spillingar á þann veg að ráðamenn Sjálfstfl. í stóli fjmrh. selja flokksgæðingum sínum einkafyrirtæki að nafninu til en gefa þau í reynd.
    Önnur spurningin var: ,,Hvað hefur Sigló hf. greitt af kaupverði lagmetisiðjunnar Siglósíldar frá kaupdegi til dagsins í dag?`` Það er kjarni málsins. Svarið er þetta: Við kaup Sigló hf. á eignum lagmetisiðjunnar Siglósíldar greiddi Sigló hf. andvirði eignanna með skuldabréfi að fjárhæð 18 millj. kr. Skuldabréfið átti að greiða á árunum 1986--1993, í fyrsta sinn 1. maí 1986. Útgáfudagur bréfsins var 2. júlí 1984. Þann 15. okt. 1985 gerðu forráðamenn Sigló hf. og þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson með sér samkomulag um að öllum kröfum á hendur Sigló hf. sem voru hjá

ríkisféhirði yrði breytt í 15 ára lán sem verði afborgunarlaust fyrstu fimm árin. Gjalddagar verða á árunum 1991 til ársins 2001, í fyrsta sinn 1. nóv. 1991. Á fyrsta gjalddaga vaxta fékk Sigló hf. að greiða vextina með skuldabréfi með gjalddögum á árunum 1985 og 1986. Fjárhæð bréfsins nam 848.240 kr. Þetta skuldabréf var fellt inn í hið nýja bréf samkvæmt ofangreindu samkomulagi. Enn fremur var vöxtunum af þessu skuldabréfi auk vaxta upphaflega bréfsins í eitt ár bætt við skuldabréfið samkvæmt sama samkomulagi. Hið nýja skuldabréf var gefið út 20. febr. 1986 og nam tæplega 31 millj. kr. Það fór í vanskil strax á fyrsta gjalddaga vaxta 1. nóv. 1986. Sigló hf. greiddi nokkuð af vöxtunum eftir að margnefnt skuldabréf hafði verið falið lögmanni til innheimtu. Þá greiddi Sigló hf. vextina með útgáfu víxla. Það sem ógreitt er af þeim er til innheimtu hjá lögmanni. Með vísan til þessa sem greint er frá hér að ofan hefur Sigló hf. greitt eitthvað af vöxtunum en engar afborganir hafa fallið í gjalddaga.
    Varðandi seinni spurningarnar þá hefur ríkisféhirðir falið lögmanni að lýsa umræddri kröfu í þrotabú Siglósíldar hf. Varðandi síðustu spurninguna er það venja við gjaldþrot að skiptaráðandi taki við þrotabúum og ráðstafar þeim til bráðabirgða og ræður bústjóra. Það var ekki á valdi fjmrn. því miður að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir tilteknar aðgerðir skiptaráðanda eða bústjóra. Á fyrsta skiptafundi búsins mun fjmrh. hins vegar koma athugasemdum sínum á framfæri en slíkt verður ákveðið á næstunni. Mér finnst þó rétt að árétta að stjórnendum og eigendum fyrirtækisins var fullkomlega ljóst að fjmrn. ætlaði ekki að veita þeim áfram sams konar ívilnanir og gert hafði verið á fyrri tíð. Þeir urðu að standa við sínar skuldbindingar og það er kannski þess vegna sem þeir gripu til þessa ráðs sem hér hefur verið lýst af fyrirspyrjanda og ég tel að sé mjög gagnrýnisvert athæfi.